- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Arnór íþróttamaður ársins – Elísa og Agnes æskufólk ársins

Arnór Viðarsson, íþróttamaður Vestmannaeyja 2023. Mynd/ÍBV
- Auglýsing -

Handknattleiksmaðurinn Arnór Viðarsson var í gær útnefndur íþróttamaður Vestmannaeyja fyrir árið 2023. Elísa Elíasdóttir, landsliðskona í handknattleik og leikmaður ÍBV var valin íþróttamaður æskunnar 16-19 ára og Agnes Lilja Styrmisdóttir íþróttamaður æskunnar 12-15 ára.

Aðsópsmikill heima og að heiman

Arnór stóð sig frábærlega á árinu. Hann var lykilmaður í Íslandsmeistaraliði ÍBV. Arnór lék einnig stórt hlutverk með U-21 árs landsliði Íslands á heimsmeistaramótinu sem fram fór í Grikklandi og í Þýskalandi í júní og fram í júlí. Íslenska landsliðið kom heim með bronsverðlaun í fyrsta sinn í 30 ár. Arnór var aðsópsmikill með íslenska landsliðinu á mótinu, jafnt í vörn sem sókn.

Lék á HM og EM

Elísa átti afar gott tímabil með meistaraflokki ÍBV og var í einu burðarhlutverka liðsins sem vann bikarkeppnina, varð deildarmeistari og hafnaði í öðru sæti í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn. Elísa var með U19 ára landsliðinu sem tók þátt í EM í Rúmeníu og lék síðan með A-landsliðinu á HM í Noregi og Danmörku undir árslok. Ísland var í fyrsta sinn í 12 ár þátttakandi á HM.

Æfir tvær íþróttagreinar

Agnes Lilja átti virkilega góðu gengi að fagna á árinu. Hún æfði af ákafa bæði handknattleik og knattspyrnu. Agnes lék landsleiki á síðasta ári fyrir U-15 ára landsliðið og var kölluð til æfinga hjá U-16 ára landsliði kvenna í handbolta. Þá hefur Agnes stigið sín fyrstu skref í meistaraflokk þrátt fyrir ungan aldur.

Leikmenn og þjálfarar heiðraðir

ÍBV notaði tækifærið og heiðraði landsliðsfólk sitt, en ÍBV átti 18 leikmenn sem léku landsleiki á árinu og fjóra þjálfara sem stýrðu landsliðum. Ásamt þeim hlutu Íslandsmeistarar ÍBV í handbolta karla og bikarmeistarar ÍBV í handbolta kvenna viðurkenningar fyrir unnin afrek.

Ingibjörg og Arnar fengu gullmerki

Síðast en alls ekki síst fengu Ingibjörg Jónsdóttir og Arnar Richardsson gullmerki ÍBV í hófinu í gær. Silfurmerki hlutu Sigríður Inga Kristmannsdóttir, Laufey Grétarsdóttir, Edda Daníelsdóttir, Ólafía Birgisdóttir, Pálmi Harðarson, Kristleifur Guðmundsson, Jakob Möller og Sigursveinn Þórðarson auk þess sem Eyjólfur Guðjónsson fékk sérstaka viðurkenningu fyrir sitt framlag í þágu íþróttanna í Vestmannaeyjum. Frændi hans Jóhann Jónsson tók við viðurkenningunni, segir í tilkynningu ÍBV.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -