- Auglýsing -
- Auglýsing -

Aron með fimm í fimmta sigrinum

Aron Pálmarsson og félagar í Barcelona eru ósigrandi. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Leikmönnum Barcelona og Aalborg Håndbold héldu engin bönd þegar þeir mættust í Barcelona í kvöld í sjöttu umferð Meistaradeildar karla í handknattleik. Alls voru skoruð 75 mörk í hröðum og skemmtilegum leik þar sem varnarleikurinn var látinn lönd og leið. Aron Pálmarsson og samherjar í Barcelona voru tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 20:18. Leiknum lauk 42:33 fyrir Barcelona.

Það er síður en svo óvanalegt að þessi lið bjóði upp á mikla markaleiki. Þegar þau mættust í Barcelona á síðasta keppnistímabili vann Barcelona, 44:35.

Barcelona hefur þar með 10 stig eftir fimm leiki í B-riðli keppninnar. Veszprém er með níu stig, Aalborg átta og Kiel sjö stig. Liðin hafa leikið mismarga leiki og t.d. hafa Barcelona og Veszprém leikið fimm sinnum hvort en Aalborg á sex viðureignir að baki.

Eins og markaskorið ber með sér var leikurinn hraður og skemmtilegur fyrir sjónvarpsáhorfendur en engir áhorfendur fengu að vera viðstaddir umfram starfsmenn íþróttahallarinnar í Barcelona.

Blaz Janc og Dika Mem skoruðu sex mörk hvor fyrir Barcelona og voru markahæstir. Aron Pálmarsson, Casper U. Mortensen og Luka Cindric skoruðu fimm sinnum hver.

Mark Strandgaard Marcher, Jonas Samuelsson og Buster Engelbrecht Juul-Lassen skoruðu sex mörk hver fyrir Aalborg og voru markahæstir. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Álaborgarliðsins.

Staðan – stig – fjöldi leikja innan sviga:

Barcelona 10(5), Veszprém 9(5), Aalborg 8(6), Kiel 7(5), Nantes 2(4), Motor 2(4), Celje 2(5), Zagreb 0(5).

Aðeins einn leikur til viðbótar verður í Meistaradeildinni í kvöld. Porto og Vive Kielce, með Sigvalda Björn Guðjónsson innanborðs, mætast í Porto kl. 19.45.

Viðureign Pick Szeged og Flensburg, sem fram átti að fara í Ungverjalandi í kvöld, var frestað eftir að a.m.k. þrír leikmenn Szeged veiktust af kórónuveirunni. Talið er að þeir hafi sýkst í ferð Szeged til Brest í Hvíta-Rússlandi í síðustu viku.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -