- Auglýsing -
- Auglýsing -

Aron með sína menn í undanúrslit í Doha

Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari Barein. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Aron Kristjánsson stýrði landsliði Barein til sigurs á Íran í dag, 28:24, í síðustu umferð riðlakeppni forkeppni Ólympíuleikanna í Doha í Katar í dag. Með sigrinum tryggði Barein sér sæti í undanúrslitum keppninnar en Íranar sitja eftir. Barein var með yfirhöndina frá upphafi til enda leiksins í dag og hafði m.a. fjögurra marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 16:12.


Leikur Barein og Íran í dag var úrslitaleikur um annað sæti í B-riðli en mótið fer fram í tveimur riðlum. Japanska landsliðið, með Dag Sigurðsson við stjórnvölin, sat yfir í lokaumferðinni eftir að hafa unnið alla andstæðinga sína og lokið riðlakeppninni með átta stig. Barein hlaut sex stig, Íranar fjögur stig. Þeir sitja eftir með sárt ennið eins og Kúveitar og Kasakar.

Katar nægir stig

Einn leikur er eftir í A-riðli. Katarar eru þessa stundina að eiga við liðsmenn Erlings Richarssonar í landsliði Sádi Arabíu. Sádar verða að vinna leikinn til þess að eiga einhvern möguleika á að komast áfram í undanúrslit ásamt annað hvort Katar eða Suður Kóreu. Katar nægir eitt stig til þess að hafna í efsta sæti og mæta Barein í undanúrslitum. Japan mætir að öllum líkindum þá Suður Kóreu í hinni viðureign undanúrslita.

Sigurlið forkeppninnar í Doha tryggir sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í París á næsta ári. Liðið í öðru sæti tekur sæti í forkeppni í Evrópu í mars.

Uppfært: Katar vann Sádi Arabíu, 33:24, í síðasta leik A-riðils. Katar og Suður Kórea fara þar með áfram í undanúrslit ásamt Japan og Barein úr B-riðli.

Í undanúrslitum á fimmtudag mætast Katar og Barein annarsvegar og Japan og Suður Kórea hinsvegar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -