Aron Pálmarsson varð fyrir meiðslum í kvöld í leik með Aalborg Håndbold gegn ungverska liðinu Pick Szeged í Meistaradeild Evrópu í handknattleik. Í frétt á vef Nordjyske segir að Aron hafi orðið að draga sig í hlé þegar um 10 mínútur voru liðnar af viðureigninni sem fram fór í Szeged í Ungverjalandi og lauk með stórsigri Aalborg, 41:29.
Ekki kemur fram hvers eðlis meiðsli Arons eru eða hvort þau er svipuð þeim sem hafa hrjáð hann síðustu vikur og mánuði og hefur tengst fótleggjunum. Alltént kom Aron ekki aftur við sögu í leiknum en hann hafði þá skorað eitt mark og átt eina stoðsendingu.
Aron meiddist í byrjun leiktíðar en var búinn að leika nokkra leiki í röð og farið á kostum í tveimur þeim síðustu á undan leiknum í kvöld, gegn GOG um síðustu helgi í dönsku úrvalsdeildinni og móti Kielce í Meistaradeildinni fyrir viku. Stóðu vonir til þess að Aron væri kominn inn á beinu brautina.
Aron er í íslenska landsliðshópnum sem kemur saman strax eftir helgina hér á landi til undirbúnings og þátttöku í tveimur leikjum í undankeppni EM 2024.
- Auglýsing -