Aron Pálmarsson og aðrir leikmenn spænska stórliðsins Barcelona losna í fyrramálið úr sóttkví og sumir jafnvel úr eingangrun eftir að kórónuveirusmit kom upp innan liðsins fyrir 10 dögum. Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni í dag.
Þar segir að allir leikmenn liðsins auk þjálfara hafi ekki mælst með kórónuveiruna í morgun þegar þeir gengust undir skimun. Þess vegna verði þeim heimilt að taka upp þráðinn við æfingar frá og með morgundeginum, þriðjudaginn 27. október.
Gert er ráð fyrir að Barcelona leiki að nýju á fimmtudaginn í Meistaradeild Evrópu. Þá mætir danska meistaraliðið Aalborg Håndbold til Barcelona en liðin eru saman í B-riðli Meistaradeildar. Viðureign Barcelona og Veszprém í Meistaradeildinni, sem fram átti að fara í síðustu viku, var frestað og einnig þremur leikjum Katalóníurisans í spænsku 1. deildinni meðan leikmenn og þjálfara sátu af sér kórónuveiruna.