- Auglýsing -
Markvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson átti góðan leik í kvöld þegar lið hans, Bietigheim, vann HSG Konstanz, 29:24, í þýsku 2. deildinni í handknattleik á heimavelli. Aron Rafn stóð allan leikinn í markinu hjá Bietigheim og varði 13 skot sem gerði liðlega 36% hlutfallsmarkvörslu.
Bietigheim er þar með komið upp í áttunda sæti deildarinnar eftir þennan sigur með 14 stig eftir 13 leiki og er einum til tveimur leikjum á eftir liðunum fyrir ofan. Leikurinn í kvöld var sá fyrsti hjá liðinu á þessu ári en keppni er að komast á fullt í tveimur efstu deildum þýska handknattleiksins á næstu dögum eftir hlé vegna heimsmeistaramótsins í Egyptalandi.
Bietigheim, sem Hannes Jón Jónsson þjálfar, var marki yfir í hálfleik, 15:14. Liðið náði góðum tökum á leiknum í síðari hálfleik, ekki síst var varnarleikur liðsins öflugur.
HSV Hamburg er efst í deildinni með 26 stig að loknum 15 leikjum. Gummersbach, sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar og Elliði Snær Viðarsson leikur með, er í öðru sæti með 23 stig eftir 13 leiki.
- Auglýsing -