- Auglýsing -
- Auglýsing -

Austurríkismenn sluppu með skrekkinn

Filip Taleski gerir sig líklega til að kasta boltanum að marki Rúmena í Skopje í kvöld. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Austurríska landsliðið slapp með skrekkinn í kvöld þegar það mætti landsliði Eistlands í fyrri viðureign liðanna í fyrstu umferð undankeppni heimsmeistaramóts karla í handknattleik í Bregenz í Austurríki. Heimamenn náðu að kreista fram tveggja marka sigur, 35:33, eftir að hafa átt undir högg að sækja á köflum í leiknum.


Liðin mætast öðru sinni í Tallin í Eistlandi á sunnudaginn en samanlagður sigurvegari í leikjunum mætir íslenska landsliðinu í umspilsleikjum um miðjan apríl þar sem úr því verður skorið hvort liðið hreppir farseðilinn á heimsmeistaramótið sem fram fer í Svíþjóð og Póllandi í janúar á næsta ári.


Eistlendingar voru marki yfir að loknum fyrri hálfleik í Bregenz í kvöld, 16:15. Þeir náðu mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik, 11:6. Austurríska liðið var komið fjórum mörkum yfir um miðjan síðari hálfleik, 27:23. Adam var ekki lengi í Paradís og Eistlendingar bitu í skjaldarrendur og gerðu hvað þeir gátu til að jafna metin. Þeim tókst það nokkrum sinnum, síðast 33:33, þegar rúmar tvær mínútur voru til leiksloka. Heimamenn náðu að skora tvö síðustu mörkin eftir harðan slag.


Tobias Wagnet var markahæstur í austurríska liðinu með níu mörk. Mykola Bilyk var næstur með átta mörk. Karl Toom skoraði sjö fyrir Eistland og Dener Jaanimaa skoraði sex mörk.


Norður Makedónía vann öruggan sigur á Rúmeníu, 30:22, í Skopje.


Síðari hálfleikur er nýlega hafinn í leik Portúgals og Sviss. Portúgalska liðið er fjórum mörkum yfir, 16:12. Úrslit leiksins verða færð hér inn þegar þau liggja fyrir.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -