- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Bara eitt lið á vellinum í síðari hálfleik

Inga Dís Jóhannsdóttir lyftir sér upp á þrumar yfir varnarvegg Norður Makedóníu. Mynd/IHF
- Auglýsing -

„Frábær sigur og stórkostleg staðreynd að vera komin áfram í milliriðil með tvö stig í farteskinu,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U20 ára landsliðs kvenna í handknattleik við handbolta.is eftir 12 marka sigur íslenska landsliðsins á landsliði Norður Makedóníu, 29:17, á heimsmeistaramóti 20 ára landsliða kvenna í Boris Trajkovski Sports Center íþróttahöllinni í Skopje í dag.

Var markmiðið

„Markmiðið var að sjálfsögðu að komast áfram í hóp 16 efstu og með tvö stig en það er enn betra að ná hvorutveggja með jafn stórkostlegri frammistöðu og raun bar vitni að þessu sinni,“ sagði Ágúst Þór þegar hann var á leiðinni úr keppnishöllinni eftir leikinn.

Hátt spennustig

„Upphafskaflinn var reyndar ekki góður hjá okkur. Spennustigið var ekki gott og fyrir vikið vorum við sex mörkum undir upp úr miðjum fyrri hálfleik. Þegar á leið þá náðum við aðeins betri tökum á leiknum. Vörn og sókn batnaði og Ethel varði mikilvæg skot. Allt leiddi það til þess að okkur tókst að jafna metin fyrir hálfleik,“ sagði Ágúst Þór en íslenska liðið var undir, 8:2 eftir ríflega 16 mínútna leik. Útlitið var ekki gott.

Bara eitt lið á vellinum

„Í síðari hálfleik var bara eitt lið á vellinum. Stelpurnar spiluðu frábæran varnarleik og báðir markverðirnir fóru á kostum. Það má segja að við höfum keyrt yfir lið Norður Makedóníu í síðari hálfleik enda unnum við hann, 18:6. Mörg marka okkar voru eftir hraðaupphlaup. Sóknarleikurinn var vel útfærður og margar að leggja í púkkið sem er afar mikilvægt. Það er hægara sagt en gert að taka lið Norður Makedóníu á þeirra heimavelli með 12 marka mun,“ sagði Ágúst Þór sem var skiljanlega í sjöunda himni.

Berum virðingu fyrir andstæðingnum

Síðasti leikur riðlakeppninnar verður á morgun gegn bandaríska landsliðinu sem hefur tapað fyrir Norður Makedóníu og Angóla.

„Við verðum að bera virðingu fyrir þeim andstæðingi sem bíður okkar á morgun þótt staða liðanna sé misjöfn. Næsti sólarhringur fer í að safna kröftum fyrir viðureignina við Bandaríkin því við viljum ljúka riðlakeppninni á faglegan og góðan hátt,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson sem er þjálfari U20 ára landsliðsins ásamt Árna Stefáni Guðjónssyni.

Sjá einnig:

Stórkostleg frammistaða í 45 mínútur – sæti í 16-liða úrslitum í höfn

HMU20 kvenna – leikjadagskrá, riðlakeppni, úrslit, staðan

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -