- Auglýsing -
- Auglýsing -

Baráttan við veiruna skiptir öllu máli

Kristinn Björgúlfsson, hefur ákveðið að láta gott heita við þjálfun karlaliðs ÍR. Mynd/ÍR
- Auglýsing -

Kristinn Björgúlfsson, þjálfari karlaliðs ÍR, segir að vel hafi gengið að halda leikmönnum við efnið síðustu vikur þótt nauðsynlegt hafi verið að brjóta upp munstrið vegna þeirra aðstæðna sem hafa skapast. ÍR-ingar hafi m.a. lagt aukna áherslu á að styrkja hópinn andlega á þessum tímum. Hann segir að menn verði að gefa sér góðan tíma til þess að hefja keppni aftur þegar opnað verður fyrir æfingar og keppni, hvenær sem það verður.

Eins segir Kristin það vera óboðlegan málflutning manna að segja að hér sé allt bannað en allt leyft í útlöndum. Menn verði að bera virðingu fyrir því ástandi sem ríki í þjóðfélaginu. Íþróttir skipti ekki aðalmáli við þessar aðstæður. Aðalatriði sé að ná tökum á veirunni hér á landi áður en næstu skref verði tekin. Landsleikir sem framundan eru séu út í hött, að mati Kristins. Best væri að heimsmeistaramótinu í handknattleik karla sem fram á að fara í Egyptalandi í janúar yrði slegið af.

Handbolti.is sendi Kristni fimm spurningar sem hann svaraði um hæl. Og víst er að Kristin talar tæpitungulaust eins og honum einum er lagið.

Hlaup og fjallgöngur

Hvernig hefur gengið að halda leikmönnum við efnið síðustu vikur?

„Það gekk bara vel. Fyrstu tvær vikurnar einkenndust af miklum hlaupum og menn þurftu að skila inn myndum af hlaupinu. Þar höfum við notast við Strava forritið og menn hafa tekið vel í það. Síðustu viku í æfingabanni einkenndist svo af fjallgöngum til að brjóta þetta aðeins upp.“

Nýttist þessi rúma vika innanhúss eitthvað að ráði?

„Já, ég vill meina það. Fyrst og fremst fyrir strákana að fá að hittast í hóp, vera saman og æfa. Þó að æfingarnar hafi ekki verið merkilegar handboltalega séð þá held ég að þetta hafi hjálpað þeim andlega að fá að komast í hús og fá harpix á puttana.“

Unnið með andlega þáttinn

Hvernig horfir þú til næstu vikna sem þjálfari?

„Ég horfi til andlega þáttarins. Hann verður mikilvægur. Staðan er eins og allir vita hundleiðinleg og ekkert óeðlilegt að leikmenn gefist upp inn á milli. Því er mikilvægt að halda vel á spilunum varðandi andlega þáttinn. Fyrir nokkrum vikum réðum við til okkar Helenu Ólafsdóttur. Helena hefur tekið yfir andlega þátt okkar og hefur undanfarnar vikur verið að vinna með drengina í gildum og markmiðum og því sem þessu fylgir. Ef menn eru í lagi í kollinum og markmiðin skýr þá er æfingin lítil vinna.

Verkefni mín hafa líka breyst. Í stað skipulagningar, klippivinnu og venjulegri vinnu þjálfarans hefur mikið af mínum tíma farið í að styrkja innviði félagsins. Bæta umgjörð fyrir mína menn, aðstoða við að sækja styrktaraðila, skipuleggja fjáraflanir og annað í þeim dúr.“

Óboðlegur málflutningur

Er eitthvað hægt að velta framhaldinu fyrir í sér í deildarkeppninni meðan óljóst er hvenær verður hægt að hefja æfingar af einhverjum krafti?

„Það er alltaf hægt að fabúlera eitthvað um það, en staðreyndin er á endanum sú að handbolti, fótbolti, golf, körfubolti eða aðrar íþróttir skipta akkúrat engu máli eins og er. Barnaskapur margra sem eiga að heita sérfræðingar sem vilja halda öllu gangandi og tala um að Ísland sé eina landið sem bannar hitt og þetta er algjörlega óboðlegur.
Ég eins og allir aðrir vonast eftir því að hægt verði að hefja æfingar og keppni eins fljótt og kostur er. En tel að sama skapi að það sé betra að bíða lengur en að fara of fljótt af stað. Ekkert vit er í að vera alltaf að byrja að æfa og hætta því svo viku síðar.“

Skilur ekki í undanþágunni

Heldur þú að svo geti farið að ekki verði leikið aftur í Olísdeild fyrr en eftir áramótin?

„Það gæti vel orðið niðurstaðan. Það gæti líka verið að við fáum ekkert að æfa fyrr en eftir áramótin. Mín persónulega skoðun er sú að það eigi einfaldlega að flauta HM af, sem og allar Evrópukeppnir. Leyfa öllum að ná tökum á Covid19 og geta einbeitt sé er því að spila handbolta eða aðrar íþróttir í heimalandinu til að byrja með. Þessir landsleikir sem nú eiga að fara fram er í mínum huga algjör brandari. Skil einfaldlega ekki það hafi verið veitt undanþága.
Auk þess er ég nokkuð viss um að mjög margir leikmenn sem spila í landsliðum yrðu fegnir ef eitt stórmót myndi frestast. Stórmót á hverju ári er glórulaust og álagið á menn ómanneskjulegt.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -