- Auglýsing -
- Auglýsing -

Belgar brjóta blað í handknattleikssögunni

Belgíska landsliðið í karlaflokki tekur þátt í HM 2023. Mynd/Handknattleikssamband Belgíu

Belgar brutu ekki aðeins blað í eigin sögu á handknattleiksvellinum í kvöld heldur einnig alþjóðlega þegar þeir tryggðu sér í fyrsta sinn keppnisrétt í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í handknattleik. Belgar unnu Slóvaka á heimavelli, 31:26, og samanlagt með þriggja marka mun í tveimur leikjum, 57:54.


Sigurliðið úr rimmu Belga og Slóvaka átti að mæta Rússum í síðari umferð umspilsins. Rússum var vísað úr keppni og þar unnu Belgar sér inn farseðilinn i dag. Fylgja þeir þar með í fótspor granna sinna frá Hollandi sem hafa gert það gott á tveimur síðustu Evrópumótum karla, ekki síst nú í janúar, undir stjórn Erlings Richardssonar.


Tveimur öðrum rimmum í undankeppni HM lauk í dag. Rúmenar unnu Norður-Makedóníumenn, 24:22, en sitja eftir með sárt ennið. Norður-Makedóníumenn unnu fyrri viðureignina með átta marka mun.


Bosnía er úr leik eftir að hafa tapað fyrir Grikkjum öðru sinni í dag, 28:26. Leikið var í Bosníu. Grikkir unnu einnig fyrri leikinn, 24:17.


Grikkir og Norður Makedóníumenn taka sæti í síðari umferð, ólíkt Belgum. Grikkir mæta Svartfellingum og Norður Makedóníumenn eiga við Tékka í tveggja leikja einvígi sem fram fer upp úr miðjum apríl.

Hverjir mæta Íslendingum?

Fleiri leikir í fyrstu umferð umspilsins fyrir HM fara fram á morgun. Þar á meðal taka Eistlendingar á móti Austurríkismönnum í Tallin. Sigurliðið leikur við íslenska landsliðið í síðari umferð undankeppni HM í apríl. Austurríki vann leikinn á heimavelli á fimmtudagskvöldið, 35:33. Eistlendingar eru til alls líklegir á morgun eftir að hafa síst verið lakari í viðureigninni í Bregenz á fimmtudagskvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -