- Auglýsing -
- Auglýsing -

Benedikt tryggði Val dramatískan sigur í Mýrinni

Benedikt Gunnar Óskarsson var markahæstur Valsmanna í 18 marka sigri á Fram. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Á ævintýralegan hátt tryggði Benedikt Gunnar Óskarsson Valsliðinu eins marks dramatískan sigur, 24:23, á Stjörnunni í lokaleik 17. umferðar Olísdeildar karla í handknattleik í Mýrinni síðdegis í dag. Hann náði skoti yfir vörn Stjörnunnar rétt áður en leiktíminn var úti. Örfáum sekúndum áður jafnaði Hergeir Grímsson metin fyrir Stjörnuna, 23:23, eftir að hafa unnið boltann af Valsmönnum í upphafi sóknar þeirra. Svo virtist sem Hergeir væri að krækja í annað stigið fyrir heimaliðið. Eins og stundum í íþróttum þá er stutt á milli hláturs og gráts.

Valur er þar með aftur kominn stigi á eftir FH í öðru sæti Olísdeildar. Stjarnan er í 7. sæti með 13 stig og heldur áfram að berjast fyrir þátttöku í úrslitakeppninni. Fimm umferðir eru eftir.

Sóknarleikurinn var ekki hafður í hávegum í Mýrinni í dag.
Varnarleikur og markvarsla var þeim mun meira áberandi. Stjarnan var með tveggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 10:8. Þeir héldu eins til þriggja marka forskoti allt þar til um 10 mínútur voru eftir þegar Benedikt Gunnar jafnaði metin, 19:19. Í kjölfarið fylgdu tvö mörk Valsmanna sem komust yfir, 21:19, enda skoraði Stjarnan ekki í sjö mínútur.

Áfram voru Valsarar með forskotið. Magnús Óli kom Val yfir, 23:21, þegar um mínúta var eftir af leiktímanum. Benedikt Marinó Herdísarson minnkaði muninn í 23:22 þegar hálf mínúta var eftir. Hergeir vann boltann af Valsmönnum 20 sekúndum fyrir leikslok og jafnaði metin, 23:23. Það litla sem var eftir nægði Val til þess að vinna sinn 14. leik í deildinni í vetur.

Vonbrigði Stjörnumanna voru skiljanleg í leikslok. Ekki aðeins yfir sigurmarki Benedikts Gunnars á síðustu sekúndu heldur yfir því að fá ekkert út úr leik þar sem þeir voru síst lakari nær allan leiktímann.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

Mörk Stjörnunnar: Hergeir Grímsson 6/5, Tandri Már Konráðsson 6, Benedikt Marinó Herdísarson 4, Haukur Guðmundsson 2, Pétur Árni Hauksson 2, Jón Ásgeir Eyjólfsson 1, Hrannar Bragi Eyjólfsson 1, Daníel Karl Gunnarsson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 19, 45,2% – Sigurður Dan Óskarsson 0.

Mörk Vals: Benedikt Gunnar Óskarsson 9/4, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 4, Ísak Gústafsson 3, Magnús Óli Magnússon 3, Tjörvi Týr Gíslason 2, Bergur Elí Rúnarsson 2, Agnar Smári Jónsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 14, 37,8%.

Tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -