Landsliðskonan sterka, Birna Berg Haraldsdóttir, hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild ÍBV. Þar með hafa fjórir öflugir leikmenn skrifað undir framlengingu á samningum sínum við ÍBV á síðustu dögum. Auk Birnu Berg eru það Sunna Jónsdóttir, Marta Wawrzynkowska og Karolina Anna Olszowa.
Birna Berg hefur verið í herbúðum ÍBV frá haustinu 2020, þegar hún kom frá Neckarsulmer í Þýskalandi. Hún hafði þá leikið í atvinnumennsku um nokkurra ára skeið í Danmörku, Svíþjóð og Noregi auk Þýskalands.
Birna varð fyrir því óláni að slita krossband í hné í upphafi yfirstandandi tímabils sem varð til þess að hún hefur ekki leikið með ÍBV á þessu tímabili. Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá ÍBV hefur Birna Berg bitið í skjaldarrendur og lagt afar hart að sér við endurhæfingu í vetur, staðráðin í að koma sterkari en nokkru sinni fyrr til leiks á næsta keppnistímabili.
Birna Berg á að baki 63 A-landsleiki.
- Auglýsing -