- Auglýsing -
- Auglýsing -

Björgvin fór hamförum gegn lánlausum Gróttumönnum

Patrekur Jóhannesson þjálfari Stjörnunnar. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net
- Auglýsing -

Björgvin Þór Hólmgeirsson fór á kostum í kvöld þegar hann leiddi Stjörnumenn til sigurs gegn Gróttu í 16-liða úrslitum Coca Cola-bikarsins í handknattleik karla. Björgvin tók fram skóna á ný á dögunum og var ekki annað að sjá en hann sé klár í slaginn. Hann skoraði 11 mörk í kvöld í fimm marka sigri Gróttu, 28:24. Stjarnan var fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 14:10. Stjarnan fær KA í heimsókn í átta liða úrslitum keppninnar á mánudagskvöld.


Sóknarleikurinn var slakur af hálfu Gróttumanna að þessu sinni. Þeir gerðu sig frá byrjun seka um að gera alltof mörg mistök. Þau komu þeim í koll. Eftir um 20 mínútna leik voru þeir sex mörkum undir, 12:6, og fjórum mörkum þegar hálfleikurinn var úti, 14:10.


Stjarnan hafði öll ráð í hendi sér í síðari hálfleik. Gróttumönnum tókst aldrei að ógna gestum sínum. Stjörnuliðið lék góðan varnarleik, jafnt 5/1 og 6/0 og neyddu leikmenn Gróttu til að gera mörg mistök. Þá var Arnór Freyr Stefánsson vel með á nótunum í markinu.


Varnarleikur Gróttu var ágætur og Einar Baldvin Baldvinsson náði sér vel á strik í markinu, sérstaklega í fyrri hálfleik. Ef marka má þennan leik virðist skýrt að Gróttumenn verða að hafa áfram mikið fyrir sigrum sínum á komandi leiktíð í Olísdeildinni.

Ljótt atvik

Ljótt atvik átti sér stað á síðustu sekúndum þegar Serbinn Igor Mrsulja missti stjórn á sér og sló Þórð Tandra Konráðsson línumann Stjörnunnar í magann. Fékk hann rautt spjald og blátt og líklegt má telja að hann hefji Olísdeildina í banni. Svona lagað vill enginn sjá í íþróttum og ljóst að Mrsulja verður að hugsa sinn gang.


Mörk Gróttu: Ólafur Brim Stefánsson 6, Andri Þór Helgason 5, Ágúst Emil Grétarsson 4, Birgir Steinn Jónsson 3, Ívar Logi Styrmisson 3, Lúðvík Thorberg Arnkelsson 1, Hannes Grimm 1, Gunnar Dan Hlynsson 1.

Mörk Stjörnunnar: Björgvin Þór Hólmgeirsson 11, Hafþór Már Vignisson 4, Tandri Már Konráðsson 3, Leó Snær Pétursson 2, Hrannar Bragi Eyjólfsson 2, Þórður Tandri Ágústsson 2, Starri Friðriksson 2, Hjálmtýr Alfreðsson 1, Dagur Gautason 1.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -