- Auglýsing -
- Auglýsing -

Blésu á hrakspár og sigruðu í Lundi

Aron Dagur Pálsson leikmaður sænska úrvalsdeildarliðins Alingsås. Mynd /Alingsås
- Auglýsing -

„Við erum afar sáttir við þennan sigur ekki síst vegna þess að það vantaði marga lykilmenn í liðið að þessu sinni. Þrír eru meiddir og einn var veikur,“ sagði Aron Dagur Pálsson leikmaður Alingsås glaður í bragði við handbolta.is í kvöld eftir góðan sigur liðsins á Lugi í Lundi, 25:24. Óhætt er að segja að leikmenn Alingsås hafi blásið á allar spár með frammistöðu sinni en Lugi þótti fyrirfram sigurstranglegra liðið.

„Við leiddum mest allan leikinn og vorum komnir fjórum mörkum yfir eftir um það bil 40 mínútur. Leikmenn Lugi náðu að komast einu marki yfir á kafla þar sem við vorum meðal annars tveimur mönnum færri. Sem betur fer þá lékum við vel síðustu tíu mínúturnar og náðum að vinna með einu,“ sagði Aron Dagur sem skoraði þrjú mörk að þessu sinni.

Með sigrinum þá heldur Alingsås sig við topp deildarinnar. Liðið hefur 13 stig eftir níu leiki, er þremur stigum á eftir IFK Kristianstad sem er í efsta sæti. Ystads IF hefur 15 stig og Malmö 14 en hafa leikið tíu sinnum hvort um sig. IFK átti að leika við Sävehof í kvöld á heimvelli. Leiknum var frestað eftir að kórónuveiran knúði dyra í herbúðum Sävehof-liðsins.

Fékk bolta í augað

Markvörðurinn Daníel Freyr Andrésson lék ekki með Guif frá Eskilstuna í kvöld þegar liðið vann HK Varberg, 32:25, á heimavelli. Daníel Freyr fékk bolta í annað auga í síðasta leik og hefur ekki jafnað sig.

„Ég verð vonandi klár í næsta leik. Þetta er vonandi ekkert alvarlegt,“ sagði Daníel Freyr í skilaboðum til handbolta.is í kvöld. „Ég fer til læknis á morgun og þá kemur betur í ljós hvernig ástandið er,“ sagði Daníel Freyr ennfremur en hann hefur leikið afar vel með Guif liðinu í flestum leikjum þess fram til þessa á keppnistímabilinu. Hann kom til Guif í sumar eftir tveggja ára veru með Val.
Guif er í áttunda sæti með 10 stig eftir 11 leiki.


Staðan, leikjafjöldi innan sviga:
Kristianstad 16(9), Ystads IF 15(10), Mamö 14(10), Alingsås 13(9), Skövde 11(9), Sävehof 11(9), Lugi 10(10), Guif 10(11), IFK Ystads 9(11), Önnereds 8(11), Redbergslid 7(11), Hallby 6(9), Aranäs 6(8), Varberg 6(10), Helsingborg 4(9).

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -