- Auglýsing -
- Auglýsing -

Blóðtaka hjá KA/Þór – Sunna hefur samið við lið í Zürich

Sunna Guðrún Pétursdóttir, markvörður, leikur í Sviss. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Ég ætla að skella mér aftur út til Sviss,“ sagði Sunna Guðrún Pétursdóttir handknattleiksmarkvörður KA/Þórs í samtali við handbolta.is en hún hefur samið við GC Amicitia Zürich til tveggja ára en liðið leikur í efstu deild handknattleiksins. Sunna Guðrún þekkir vel til í Sviss eftir að hafa leikið með LK Zug keppnistímabilið 2019/2020 en þurfti þá frá að hverfa vegna innrásar kórónuveirunnar.


„Það er ekki nema rúm vika síðan að félagið hafði samband við mig. Ég ákvað að stökkva á tilboðið. Bæði var að boðið var gott og síðan er æðislegt að búa út í Sviss,“ sagði Sunna Guðrún sem er 24 ára gömul og hefur leikið með KA/Þór síðustu tvö árin og var m.a. hluti af margföldu meistaraliði keppnistímabilið 2020/2021. Áður hafði hún leikið með yngri flokkum félagsins en hún er Akureyringur í húð og hár.

Voru fyrri til

„Ég var í viðræðum við KA/Þór þegar svissneska liðið hafði samband við mig. Það má segja að GC Amicitia Zürich liðið hafi orðið fyrri til að klára málin við mig. Ég ákvað að slá til þótt ekki sé um að ræða eitt af allra sterkustu liðunum í Sviss. Það getur líka vera gaman að taka þátt í að byggja eitthvað upp með nýjum liðsfélögum,“ sagði Sunna Guðrún sem að útskrifast með BS í byggingaverkfræði síðar í þessum mánuði.

Allt smellur vonandi saman

„Samhliða handboltanum fæ ég vinnu við námið sem ég var að ljúka svo að það má segja að allt smelli saman,“ sagði Sunna Guðrún sem bjó suður í Reykjavík í vetur og fékk að æfa með Fram milli þess sem hún fór norður og æfði með KA/Þór í kringum leiki. Annars var verkfræðinámið aðalatriðið á dagskrá Sunnu Guðrúnar í vetur.

Sunna Guðrún hefur augun á boltanum í vítakasti Karenar Knútsdóttur í undanúrslitaleik KA/Þórs og Fram í undanúrslitum bikarkeppninnar í mars. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Nýflutt heim til Akureyrar

„Ég er rétt flutt norður til Akureyrar eftir námið þegar þetta kom upp og staldra þar með ekki lengi við. Flyt út til Sviss í lok júlí eða í byrjun ágúst þegar æfingar hefjast af krafti fyrir keppnistímabilið í Sviss. Ég er í vinnu hjá Verkís og þar á bæ er fólk mjög almennilegt og ætlar að leyfa mér að fara með skömmum fyrirvara,“ sagði Sunna Guðrún sem er skiljanlega full eftirvæntingar með vistaskiptin.

Hittir Akureyringin hjá félaginu

Fyrir hjá GC Amicitia Zürich er Akureyringurinn Harpa Rut Jónsdóttir en hún samdi við félagið á dögunum eins og kom fram á handbolta.is. Segja má að Harpa Rut eigi þátt í að Sunna Guðrún komi til félagsins en hún benti þjálfaranum, Dananum Kent Ballegaard, á að Sunna Guðrún gæti verið góður kostur í leit félagsins að markverði.

Íslandsmeistarar KA/Þórs í handknattleik kvenna 2021. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Frábær ár hjá KA/Þór

„Ég hef átt frábær ár hjá KA/Þór og kveð með tregja eftir mikið ævintýri síðustu tvö keppnistímabil. Að sama skapi er alltaf spennandi að prófa eitthvað nýtt,“ sagði Sunna Guðrún Pétursdóttir, markvörður sem leikur með GC Amicitia Zürich næstu tvö árin.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -