- Auglýsing -
- Auglýsing -

Bökum snúið saman þegar mestu skipti – ÍBV jafnaði metin

Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Leikmenn ÍBV bitu hressilega frá sér í annarri viðureign sinni við Val í úrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik í Vestmannaeyjum í dag. Þeir sneru leiknum sér í hag á síðustu fimm mínútunum og unnu með tveggja marka mun, 33:31. Sex mínútum fyrir leikslok voru Valsmenn þremur mörkum yfir. Þetta var um leið fyrsta tap Vals í úrslitakeppninni að þessu sinni eftir sex sigurleiki í röð. Þeir sem flestum virtust ósigrandi.


Þriðja viðureign liðanna verður í Origohöllinnni á miðvikudagskvöld og víst er að önnur eins veisla og var í dag er í aðsigi í Vestmannaeyjum á næsta laugardag þegar liðin leiða á ný saman hesta sína.


Hetja Eyjamanna á lokakaflanum var markvörðurinn Björn Viðar Björnsson. Hann skellti í lás og varði allt hvað af tók. Frammistaða hans varð til þess að ÍBV átti þess kost að snúa við taflinu með ævintýralegum stuðningi áhorfenda sem létu ekki sitt eftir liggja fremur en venjulega þegar mest á ríður hjá íþróttamönnum þeirra. Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst.


Lið ÍBV var vængbrotið, Rúnar Kárason var ekki með og Sigtryggur Daði Rúnarsson gat ekki beitt sér auk þess sem Theodór Sigurbjörnsson er ennþá fjarverandi. Þegar mest á ríður þá þjappa Eyjamenn sér saman utan vallar sem innan eins og sást í dag.


Þegar öllu er á botninn hvolft geta leikmenn Vals víst ekki kennt öðrum en sjálfum sér um tapið. Þeir fóru illa að ráði sínu í góðum færum auk þess sem nokkuð var um mistök í opnum leik, ekki síst þegar á leið viðureignina.


Valur var lengst af með frumkvæðið. Liðið byrjaði báða leikhluta afar vel en varð að láta undan þegar fram í sótti.


Í hálfleik var eins marks munur, 15:14. Valur komst síðan fljótlega yfir, 20:15, eftir liðlega sex mínútur og aftur 24:21, rétt fyrir miðjan síðari hálfleik.


Mörk ÍBV: Kári Kristján Kristjánsson 6/2, Ásgeir Snær Vignisson 6, Dagur Arnarsson 5, Elmar Erlingsson 5/4, Arnór Snær Viðarsson 4, Friðrik Hólm Jónsson 3, Gabríel Martinez Róbertsson 2, Sigtryggur Daði Rúnarsson 2.
Varin skot: Björn Viðar Björnsson 12,36,4%

Mörk Vals: Stiven Tobar Valencia 7, Arnór Snær Óskarsson 6/3, Tjörvi Týr Gíalason 6, Þorgeir Bjarki Davíðsson 3, Magnús Óli Magnússon 3, Róbert Aron Hostert 3, Einar Þorsteinn Ólafsson 1, Benedikt Gunnar Óskarsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 11/2, 26,2%.

Öll tölfræði leiksins er að finna hjá HBStatz.

Handbolti.is var í Vestmannaeyjum og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -