- Auglýsing -
- Auglýsing -

Bólusetningaskylda á EM kemur ekki niður á landsliðinu

Bólusetningaskylda á EM í handknattleik í janúar verður ekki þrándur í götu fyrir þátttöku íslenskra handknattleiksmanna á mótinu. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Handknattleikssamband Evrópu, EHF, tilkynnti í morgun að aðeins þeir sem eru bólusettir fyrir kórónuveirunni eða geti sannað að þeir hafi fengið veiruna, verði heimilt að taka þátt í Evrópumeistaramótinu í handknattleik karla sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar. Þátttakendur verða að framvísa bólusetningavottorði eða vottorði sem staðfestir að þeir hafi fengið veiruna.

EHF fylgir þar með í kjölfar Alþjóða handknattleikssambandsins sem setti sambærilegar reglur fyrir þátttakendur á heimsmeistaramóti kvenna sem fram fer á Spáni í næsta mánuði.


Strangar reglur verða á Evrópumótinu í Ungverjalandi. M.a. verða allir þátttakendur að fara í PCR próf annan hvern dag meðan þeir taka þátt í mótinu auk þess sem grímuskylda verður á öllum opinberum stöðum mótsins. Leikmenn og þjálfarar mega þó fara út af hótelum sínum í frítíma en mælt er gegn því að þeir sæki opinbera staði og þeim ber að forðast fjölmenni.


Komi upp smit meðal leikmanna og starfsmanna landsliðanna verða smitaðir settir í einangrun á öðru hóteli, smit rakin, og þeir sem kunna að vera útsettir fara í sóttkví meðan grunur um smit verður uppi.

Breytir engu

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, sagði við handbolta.is í morgun að hann eigi ekki von á að reglurnar um bólusetningu komi í veg fyrir að landsliðsþjálfaranum, Guðmundi Þórði Guðmundssyni, standi til boða þeir leikmenn sem hann hefur hug á að velja.

Leikmenn og starfsmenn bólusettir

“Á þessari stundu veit ég ekki um nokkurn landsliðsmann sem ekki er bólusettur. Við vorum með fjölmennan hóp við æfingar hér á landi í byrjun þessa mánaðar. Ég get staðfest að allir þeir voru bólusettir auk þess sem ég veit um menn utan þessa sem hóps, eins og til dæmis Sigvaldi Björn Guðjónsson og Ágúst Elí Björgvinsson sem eru bólusettir. Sama á við alla starfsmenn landsliðsins. Þeir eru allir bólusettir og hafa skilað bólusetningavottorðum inn á mitt borð,” sagði Róbert.

Gengið úr skugga fyrir val

Fyrir dyrum stendur að velja 35 manna hóp fyrir mótið sem verður tilkynntur snemma í desember. Áður en hópurinn verður tilkynntur verður gengið úr skugga um að þeir sem á honum verði séu full bólusettir.

Ekki eitt dæmi

“Miðað við þær upplýsingar sem ég hef og þau bólusetningavottorð sem ég hef fengið frá leikmönnum og þjálfurum þá hef ég ekki áhyggjur af því að reglur EHF komi niður á okkar leikmannahópi fyrir EM,” sagði Róbert Geir ennfremur og bætti við að fram til þessa hafi ekki eitt dæmi um óbólusetta landsliðsmenn komið inn á sitt borð þrátt fyrir að nokkur landslið sambandsins hafi farið í keppnisferðir í haust og það sem af er vetrar.

Allir bólusettir til þessa

“Um þessar mundir eru til dæmis þrjú landslið á okkar vegum í keppnisferðum. Hver einasti í þeim hópum er fullbólusettur. Það er staðfest,” sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -