- Auglýsing -
- Auglýsing -

Brúðkaup gerði harðan KA-mann að liðsstjóra Þórs

Gunnar Níelsson, KA-maður með meiru á góðri stund með feðgunum Árna Stefánssyni og Stefáni Árnasyni. Mynd/Þórir Tryggvason - Facebooksíða Gunnars
- Auglýsing -

Gunnar Níelsson, eða Gunni Nella, er einn harðasti stuðningsmaður KA sem til er en lengi hefur verið djúp gjá á milli KA-manna og Þórsara á Akureyri. Hún kom þó ekki í veg fyrir að Gunni væri um skeið liðsstjóri handknattleiksliðs Þórs fyrir ríflega 20 árum. Í tilefni að viðureign Þórs og KA í 32-liða úrslitum Coca Cola-bikarsins í handknattleik í kvöld rifjar Gunni upp í samtali við akureyri.net á sinn skemmtilega hátt hvernig stóð á því að hann, þessi grjótharði KA-maður, varð liðsstjóri karlaliðs Þórs. Hann var einmitt í því hlutverki síðast þegar félögin leiddu saman hesta sína í bikarkeppninni, 15. desember 1998.


Ástæðan var matur að sögn Gunnars sem á þessum tíma var að skipuleggja brúðkaup sitt og Ragnhildar Jósefsdóttur unnustu sinnar. „Það var þannig að við Ragga ætluðum loks að gifta okkur vorið ´99, þannig að samningurinn var matarkyns! Við vorum ákveðin í því að veita vel og hafa marga og því ljóst að brúðartertu þyrfti fyrir rúmlega tvö hundruð manns,” segir Gunnar við akureyri.net en þjálfari Þórs á þessum tíma var Andrés Magnússon bakarameistari. Andrés skoraði einmitt á Gunnar að taka að sér liðsstjórnina.


Fleira matakyns kom til en aðeins kakan þar sem Þórsarar tengdust fleiru en bakstri á Akureyri þá eins og nú. Einnig þurfti að nálgast kjöt og matreiðslumann. Hvar var það að finna nema hjá Þórsurum.


Til viðbótar varð Gunnar að leggja spilin á borðið fyrir föður sinn Níels Halldórsson áður hann féllst á að verða liðsstjóri hjá erkifjendunum í Þór. „Þá var komið að því að útskýra málið fyrir karli föður mínum og ég ímyndaði mér að það gæti orðið þyngra ferðalag, en hann tók mér vel. Sagði samt: Ekki búast við mér í rauðri treyju, kallandi áfram Þór! Ég hafði aldrei gert ráð fyrir því, og þar með var þetta ákveðið.“


Til að kóróna embættið hjá Þór þá mættust Þór og KA í bikarkeppninni þennan vetur og þá þyngdist enn róðurinn hjá Gunna eins og lesa má nánar um í bráðskemmtilegu viðtali Skapta Hallgrímssonar við Gunna á vefnum akureyri.net.

Viðureign Þórs og KA í Coca Cola-bikarkeppninni fer fram í kvöld og hefst klukkan 19.30 í Íþróttahöllinni á Akureyri. Leikið verður fyrri luktum dyrum en viðureigninni verður sjónvarpað í beinni útsendingu á RÚV2.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -