- Auglýsing -
- Auglýsing -

Brynjar Vignir tryggði Íslandi sigur í Aþenu

Brynjar Vignir Sigurjónsson varði á síðustu sekúndu mikilvægt skot í opnu færi og kom í veg fyrir að Marokkómenn jöfnuðu metin. Mynd/IHF /Jozo Cabraja
- Auglýsing -


Íslenska 21 árs landsliðið slapp með skrekkinn í upphafsleik sínum á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla í Aþenu í morgun. Liðinu tókst að kreista út nauman tveggja marka sigur á landsliði Marokkó, 17:15, eftir að hafa skorað þrjú síðustu mörk leiksins á lokamínútunum.

Brynjar Vignir Sigurjónsson, markvörður, var hetja íslenska liðsins. Hann varði skot af línu úr opnu færi fimm sekúndum fyrir leikslok. Kom Mosfellingurinn þar með í veg fyrir að Marokkómenn jöfnuðu metin og hirtu hugsanlega annað stigið.

Arnór Viðarsson, Benedikt Gunnar Óskarsson, Simon Michael Guðjónsson og Andri Már Rúnarsson þakklatir fyrir naum sigur. Mynd/IHF/Jozo Cabraja

Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði 17. marki úr vítakasti eftir að leiktíminn var útrunninn. Vítakastið var dæmt þegar brotið var á sóknarmanni íslenska liðsins sem hugðist snúa vörn í sókn á síðustu sekúndum eftir frábæra markvörslu Brynjars Vignis.
Sviðskrekkurinn er vonandi úr íslensku piltunum eftir þessa viðureign í Melina Merkouri-keppnishöllinni í Aþenu. Næsti leikur verður við landslið Chile á morgun og verður flautað til leiks á sama stað og í morgun klukkan 10.15.

Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði tvö af þremur síðustu mörkum Íslands á síðustu liðlega tveimur mínútum leiksins. Mynd/IHF/Jozo Cabraja

Staðan í hálfleik var 7:5 fyrir Ísland eftir slakan fyrri hálfleik og 29% sóknarnýtingu gegn harðskeyttu liði Marokkó sem hafnaði í 5. sæti á Afríkumótinu á síðasta ári.

Í upphafi síðari hálfleiks virtist íslenska liðið vera að brjóta sig út úr skelinni. Það komst í 11:6 eftir fimm mínútur. Harðskeyttir varnarmenn Marokkó og öflugur markvörður sáu til þess að kippa íslensku piltunum niður á jörðina. Á næstu 22 mínútur skoraði íslenska liðið aðeins þrjú mörk. Marokkómenn komust yfir, 14:15, þegar tvær mínútur og 30 sekúndur voru eftir af leiktímanum. Hafði þá hurð skollið margoft nærri hælum við íslenska markið og Afríkumennirnir átta nokkur tækifæri til þess að komast yfir.

Mörk Íslands: Þorsteinn Leó Gunnarsson 4, Símon Michael Guðjónsson 3, Andri Már Rúnarsson 2, Benedikt Gunnar Óskarsson 2/1, Kristófer Máni Jónasson 2, Tryggvi Þórisson 2. Arnór Viðarsson 1, Guðmundur Bragi Ástþórsson 1/1.
Varin skot: Adam Thorstensen 6, 32% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 2, 50%.

Ýtarlegri tölfræði.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -