- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Býr sig undir glímu við Stefán vin sinn

Ágúst Þór Jóhannson þjálfari Vals. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Nú hefst undirbúningur við glímuna við Stefán vin minn,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari kvennaliðs Vals glaður á brún og brá eftir öruggan sigur, 28:20, á ÍBV í undanúrslitum Coca Cola-bikars kvenna í handknattleik á Ásvöllum í gærkvöld.


Valur mætir Fram í úrslitaleik á morgun klukkan 13.30 en Framarar kjöldrógu Íslands- og bikarmeistara KA/Þórs í hinni viðureign undanúrslitanna, 31:23. Stefán sem Ágúst nefndi er Stefán Arnarson, hinn sjóaði þjálfari Fram. Ágúst og Stefán hafa marga hildi háð á handknattleiksvellinum með leikmönnum sínum.

Thea Imani Sturludóttir sækir að Mariju Jovanovic varnarmanni ÍBV í undanúrslitaleiknum í gærkvöld. Hildigunnur Einarsdóttir línumaður er var við öllu búin. Mynd/J.L.Long

Alltaf stórleikir

„Viðureignir Fram og Vals eru alltaf stórleikir enda eru þar á ferðinni tvö frábær handboltalið. Alltaf er gert ráð fyrir því að Valur og Fram leiki til úrslita í öllum mótum alveg sama hver staðan er á leikmannahópum liðanna hverju sinni. Vonandi fáum við frábæran úrslitaleik á laugardaginn.


Framliðið leit mjög vel út í undanúrslitaleiknum við KA/Þór. Leikmenn voru mjög sprækir og Hafdís [Renötudóttir] frábær í markinu. Ég og leikmenn mínir búum okkur undir mjög erfiðan leik. Vonandi fjölmennir fólk á leikinn því við viljum sjá full áhorfendastæðin og brjálaða stemningu,“ sagði Ágúst.


Spurður út í sigurinn örugga á ÍBV í gærkvöld sagði Ágúst Þór að allt hefði gengið upp hjá sínu liði. Hernaðaráætlunin hafi heppnast.

Náðum taktinum úr sóknarleik ÍBV

„Bakverðir okkar sóttu mjög langt fram á sóknarmenn ÍBV auk þess sem við reyndum að klippa út hornamennina. Þetta gekk vel og þannig náðum við taktinum úr sóknarleik Eyjaliðsins.

Hulda Dís Þrastardóttir í þann mund að skora fyrir Val í undanúrslitaleiknum við ÍBV í gærkvöld. Sunna Jónsdóttir og Elísa Elíasdóttir, leikmenn ÍBV, fylgjast með framvindunni. Mynd/J.L.Long


Í síðari hálfleik tókst ÍBV-liðinu aðeins að koma til baka og minnka muninn í fjögur mörk með því að fara í sjö á sex í sókninni. Okkur tókst að svara því. Heilt yfir var varnarleikurinn og markvarslan frábær hjá okkur. Eftir því sem leið á leikinn þá tókst okkur að ná betri tökum á seinni bylgjunni í sóknarleik okkar eftir örlítið óðagot framan af,“ sagði Ágúst Þór glaður í bragði með sigurinn örugga og sæti í úrslitum Coca Cola-bikarsins á morgun, laugardag.


Uppskrift að góðum úrslitum.

„Sóknarleikurinn var einnig vel út færður. Stelpurnar skutu vel á markið, léku sig í góð færi og töpuðu sjaldan boltanum. Eins skiluðu þær sér hratt og vel til baka í vörnina. Þetta er uppskrift að góðum úrslitum.


„Sem betur fer varð þetta aldrei spennuleikur. Ég er mjög ánægður með það,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals í þann mund sem hann yfirgaf Ásvelli á ellefta tímanum í gærkvöldi.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -