- Auglýsing -
- Auglýsing -

Byrja í kvöld eftir bið frá 2. október

Phil Döhler átti stórleik í marki FH í kvöld. Mynd/ J.L.Long
- Auglýsing -

Stjarnan tekur á móti FH í Olísdeild karla í handknattleik karla í TM-höllinni í kvöld. Flautað verður til leiks klukkan 18. Um er að ræða fyrsta leik Stjörnuliðsins eftir að keppni hófst á nýjan leik í Olísdeild karla um síðustu helgi. FH-ingar mættu Gróttu um síðustu helgi þar sem þeir unnu stóran sigur, 31:22, eftir að hafa náð 13 marka forskoti um miðjan síðari hálfleik.

„Allir eru ánægðir með að byrja aftur. Okkar síðasti heimaleikur var við KA 2. október,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar við handbolta.is í hádeginu.


Stjörnuliðið verður ekki alveg fullskipað í kvöld. Hafþór Már Vignisson handarbrotnaði á dögunum og Brynjar Darri Baldursson fékk höfuðhögg fyrir nokkru og verður frá keppni um ótiltekinn tíma.

„Adam Thorstensen, markvörður er klár í slaginn og Sigurður Dan Óskarsson verður einnig í hóp í stað Brynjars þótt hann hafi ekki æft mikið eftir aðgerð á liðþófa í vetur,“ sagði Patrekur ennfremur við handbolta.is og bætti við að hornamaðurinn Dagur Gautason, sem kom til Stjörnunnar í sumar frá KA, verði með í kvöld. Dagur hefur jafnað sig á meiðslum sem hann varð fyrir skömmu áður en hlé var gert á keppni í Olísdeildinni í byrjun október. Dagur skrifaði nýverið undir framlengingu á samningi sínum við Stjörnuna fram til ársins 2023.

Dagur Gautason hefur framlengt samning sinn við Stjörnunar til ársins 2023. Mynd/Stjarnan

„Ég reikna með hörkuleik í kvöld við FH. FH-liðið er sterkt. Margir leikmenn hafa spilað lengi saman. Þeir litu vel út á móti Gróttu á sunnudaginn. En við erum tilbúnir í leikinn,“ sagði Patrekur.

Áhorfendum verður ekki hleypt inn í TM-höllinni til að fylgjast með leiknum í kvöld. Þeir verða að fylgjast með í sjónvarpinu en Stöð2sport sýnir viðureignina í beinni útsendingu sem hefst klukkan 18.

Verður lengi frá

Patrekur reiknar með að Hafþór Már verði lengi frá keppni. Hann fór í aðgerð á dögunum eftir að hafa handarbrotnaði í æfingaleik við KA 15. janúar. „Það er að minnsta kosti langt í Hafþór. Hugsanlega verður hann ekkert meira með okkur á tímabilinu,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -