- Auglýsing -
- Auglýsing -

Byrjum í janúar þrátt fyrir HM

Byrnjólfur Snær Brynjólfsson leikmaður Hauka. Mynd/Haukar topphandbolti
- Auglýsing -

„Í mínum huga er mjög mikilvægt að Handknattleikssambandið lýsi því yfir, helst um helgina, að það verði ekki leikið fyrr en eftir áramót svo að menn hafi eitthvað fast í hendi,“ segir Þorgeir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Hauka og einn reyndasti forsvarsmaður innan handknattleikshreyfingarinnar.


„Næsta skref hjá sambandinu væri að tilkynna að keppni hefjist um miðjan janúar. Þjálfarar í handboltanum hér heima eru miklir fagmenn sem hafa lagt metnað í að menntast og viða að sér þekkingu. Þess vegna höfum við náð svona langt í handboltanum. Þjálfararnir verða að hafa fasta dagssetningu hvenær byrjað verði aftur svo mögulegt verði að búa leikmenn undir það hvenær þráðurinn verður tekinn upp aftur. Þeir verða að skipuleggja sína þjálfun þannig að leikmenn þeirra verði sem best undir það búnir. Þjálfurunum er það mikið metnaðarmál að leikmenn verði klárir svo hægt verði eins kostur er að forðast álagsmeiðsli. Í liðunum í Olísdeildunum eru margir ungir leikmenn sem mikil ábyrgð hvílir á. Þeir eru að vaxa og þroskast en hætt við álagsmeiðslum ef ekki er rétt haldið á spilunum. Við höfum komið okkar skilboðum í þessum efnum til HSÍ,“ segir Þorgeir.

Áhorfendur eru nauðsynlegir


Þorgeir segir ennfremur það vera sína skoðun að taka eigi upp þráðinn í Olísdeild karla í janúar óháð þótt heimsmeistaramótið fari fram í Egyptalandi.


„Við verðum að byrja í janúar þótt einhverja leikmenn vanti og þjálfara. Þá verður bara að fresta leikjum eða þá að lið samþykki að leika þótt lið verði ekki fullskipuð,“ segir Þorgeir og leggur mikla áherslu á að þegar keppni verði leyfð á ný í Olísdeildunum að þá verði heimilt að hafa áhorfendur.

Getum búið til skemmtilegt mót


Þess vegna m.a. skipti máli að bíða fram í janúar með von um að þá verði búið að kveða veiruna að mestu leyti niður hér á landi og fólk megi koma saman á nýjan leik. Útilokað sé að byrja að leika aftur í flýti og verða kannski að hætta aftur vegna þess að veiran fer af stað aftur. Yfirvegun sé nauðsynleg. Eins fylgi því ekkert nema kostnaður að leika í tómum sölum.
Þorgeir segir að með því að taka höndum saman og nýta vikurnar fram að áramótum við að kveða veiruna niður og taka upp þráðinn við keppni um miðjan janúar verði allar forsendur fyrir hendi að búa til skemmtilegt mót. Margir leikir á nokkrum mánuðum með áhorfendum. Þar með myndist góð stemning í húsunum því ljóst sé að almenningur hafi mikla þörf fyrir að hittast eftir að hafa verið lokaður af vikum og mánuðum saman. „Þörfin fyrir afþreyingu verður svo sannarlega fyrir hendi.

Stokka þarf upp bikarkeppnina


Á hinn bóginn verður ekki hjá því komist að breyta eitthvað skipulagi mótsins, að sögn Þorgeirs, svo ekki verði leikið langt fram á sumar. M.a. gæti komið til þess að fækka umferðum í úrslitakeppninni. Eins verði ekki hjá því komist að stokka upp bikarkeppnina og leika þéttar í kringum úrslitahelgi bikarkeppninnar. Óþarfi sé að öll liðin fari í margra daga frí vegna bikarkeppninnar sem ekki nema fjögur lið úr hvorri deild karla og kvenna taka þátt í.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -