- Auglýsing -
- Auglýsing -

Corrales fór á kostum, æsispenna og darraðardans

Mynd/EPA
- Auglýsing -

Það verða ungverska liðið Veszprém og Evrópumeistarar Vardar frá Norður-Makedóníu sem mætast í úrslitaleik hinnar geysisterku Austur-Evrópudeildar, SEHA – Gazprom league, í handknattleik karla á sunnudaginn.

Þetta liggur fyrir eftir að Veszprém lagði Meskhov Brest frá Hvíta-Rússlandi, 28:24, í undanúrslitum í kvöld. Vardar vann Zagreb, 30:29, í hinni undanúrslitaviðureigninni eftir vítakeppni og darraðadans. Báðir leikir fóru fram í Zadar í Króatíu.

Keppninni átti að ljúka í vor en var þá frestað eins og svo mörgu öðru vegna kórónuveikinnar.

Spænski markvörðurinn Rodrigo Corrales fór á kostum í marki Veszprém. Reið djarflega frammistaða hans öðru fremur baggamuninn þegar upp var staðið.  Brest-liðið var marki yfir að loknum fyrri hálfleik 13:12. Þegar síðari hálfleikur var hálfnaður var Veszprém komið  með þriggja marka forskot, 19:16, ekki síst vegna stórleiks Corrales. Alls varði hann 15 skot í leiknum, rétt ríflega 40% hlutfallsmarkvörslu.  Sjö mínútum fyrir leikslok var munurinn sex mörk og úrslitin ráðin.

Casper Marguc og Petar Nenadic skoruðu sex mörk hvor fyrir Veszprém. Alexander Shkurinsky var markahæstur hjá Brest með sex mörk og næst kom Marko Panic með fimm. Markahæsti maður keppninnar, Mikita Vailupau, virtist miður sín og skoraði aðeins tvisvar sinnum. Hann hefur þar með skorað 105 mörk í keppninni sem hófst í fyrrahaust.

Vopnin snerust í höndum manna

Meiri spenna var í viðureign Vardar og Zagreb en einnig þar skipti markvörður annars liðsins sköpum hvort liðið fór með sigur úr býtum. Framan af leik var um harla litla spennu að ræða. Zagreb-liðið, undir stjórn Igor Vori, var með yfirhöndina. Munaði þremur mörkum í hálfleik, 16:13. Mestur var munurinn sex mörk, 23:17, ellefu mínútum fyrir leikslok. Þá var eins og liðsmönnum Zagreb félli allur ketill í eld. Að minnsta kosti snerust vopnin óskaplega í höndum þeirra. „Stríðsmennirnir“ frá Skopje gengu á lagið og söxuðu jafnt og þétt á forskotið.

Ivan Cupic minnkaði muninn í eitt mark þegar mínúta var til leiksloka, 26:25. Það var síðan markvörðurinn Borko Ristovski sem varði skot 10 sekúndum fyrir leikslok sem gaf leikmönnum Vardar möguleika á að komast í sókn og jafna metin, 26:26. Lovro Jotic skoraði jöfnunarmarkið rétt áður en leiktíminn var úti. Kaldhæðnislegt er að bæði Cupic og Jotic eru Króatar.

Ekki var framlengt heldur farið umsvifalaust í vítakeppni þar sem Ristovski, markvörður Vardar og landsliðsmarkvörður Norður-Makedóníu, stóð vaktina af árverkni og varði tvö vítaköst. Samherjar hans voru öryggið uppmálað í sínum vítaköstum og þar með var björninn unninn, 30:29.

Borko Ristovski varði þegar mest á reyndi hjá Vardar í kvöld. Mynd/EPA

Veszprém hefur tvisvar unnið Austur-Evrópudeildina 2015 og 2016. Vardar hefur fimm sinnum farið með sigur út býtum, m.a. 2017 í úrslitaleik gegn Veszprém.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -