Portúgal er komið í undanúrslit á HM í handknattleik karla í fyrsta sinn eftir sigur á Þýskalandi, 31:30, í framlengdum leik í Unity Arena-keppnishöllinni í Bærum í Noregi. Matim Costa skoraði sigurmark Portúgal þegar fjórar sekúndur voru eftir af framlengingu. Reyndar tók fimm skref en það fór framhjá, Lars Jørum og Håvard Kleven, norskum dómurum leiksins.
Portúgalska liðið mætir heimsmeisturum Danmerkur í undanúrslitaleik í Unity Arena á föstudagskvöldið klukkan 19.30.
Danir unnu Brasilíumenn örugglega í kvöld, 33:21.
Frade fékk rautt spjald
Staðan í hálfleik var 13:9, Portúgal í vil. Luis Frade var vikið af leikvelli með rautt spjald snemma í síðari hálfleik. Virtist það slá portúgalska liðið út af laginu um skeið. Þjóðverjar lögðu allt í sölurnar og tókst að komast yfir í fyrsta sinn, 19:18, þegar rúmar 13 mínútur voru til loka á 60 mínútna leik. Eftir það var stál í stál.

Áttu síðustu sóknina
Jafnt var að loknum venjulegum leiktíma, 26:26. Þjóðverjar, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, átti síðustu sóknina í hefðbundnum leiktíma. Einum manni færri tókst þeim ekki að skora og þess vegna varð að framlengja í tvisvar sinnum fimm mínútur. Portúgalska liðið komst tveimur mörkum yfir, 29:27, í fyrri hluta framlengingar en þýska liðið var þrautseigt með Andreas Wolff markvörð fremstan í flokki.

Mertens jafnaði
Lukas Mertens jafnaði metin fyrir Þjóðverja, 30:30, þegar 25 sekúndur voru eftir af framlengingunni. Eldri Costa-bróðurinn sá hinsvegar að tryggja sigurinn með fjórða marki sínu. Francisco Costa var á hinn bóginn markahæstur með átta mörk.
Áfram heldur ævintýrið
Áfram heldur þar með ævintýri portúgalska landsliðsins á HM. Liðið hefur unnið sex leiki en gert eitt jafntefli við Svíþjóð, 37:37. Alfreð og Þjóðverjar eru úr leik eftir fimm sigurleiki og tvö töp. Auk tapsins í kvöld biðu Þjóðverjar lægri hlut gegn heimsmeisturum Danmerkur. Talsverð afföll hafa verið í þýska liðinu vegna meiðsla og veikinda.

Auk Francisco Costa með átta mörk var Victor Inturiza með sjö mörk og Pedro Portela með fjögur mörk eins og Matim Costa, hetja leiksins.
Lukas Zerbe var markahæstur í þýska liðinu með níu mörk, þar af sjö mörk úr vítaköstum. Juri Knorr skoraði sjö mörk. Wolff var frábær í markinu, varði 21 skot, 42%.
HM “25: Leikjadagskrá, átta liða úrslit, undanúrslit