Afturelding og Haukar mætast í þriðja sinn í undanúrslitum Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld. Síðast áttust liðin við á Ásvöllum í Hafnarfirði en í kvöld verður vettvangur liðanna íþróttahúsið að Varmá í Mosfellsbæ. Flautað verður til leiks klukkan 19.30.
Staðan er jöfn í rimmunni. Hvort lið hefur einn vinning. Afturelding vann fyrsta leikinn á heimavelli á föstudaginn, 28:24. Haukar svöruðu fyrir sig með dramatískum sigri, 29:28, á Ásvöllum á mánudagskvöldið eftir að hafa skorað þrjú síðustu mörkin. Mikið gekk á á síðustu sekúndunum og voru svo sannarlega ekki allir á eitt sáttir þegar upp var staðið. Úrslitin standa hvað sem öðru líður.
Í gær lauk hinni rimmu undanúrslita með þriðja sigri ÍBV á FH, 31:29. Eyjamenn kasta þar með mæðinni næstu daga meðan leikmenn Aftureldingar og Hauka halda áfram að berast á banaspjótum á handknattleiksvellinum.
Olísdeild karla, undanúrslit, 3. umferð:
Varmá: Afturelding – Haukar (1:1), kl. 19.30 – sýndur á Stöð2sport.