Fimmta umferð Olísdeildar karla hefst í kvöld með þremur leikjum sem fram fara í Vestmannaeyjum, á Seltjarnarnesi og á Akureyri.
Riðið verður á vaðið í Vestmannaeyjum klukkan 18 þegar flautað verður til leiks ÍBV og Stjörnunnar. ÍBV er í öðru sæti deildarinnar og er annað tveggja liða deildarinnar sem ekki hefur tapað leik til þessa. Gengi Stjörnunnar hefur verið upp og ofan en fjögur stig eru komin í safnið eftir fjóra leiki og sjötta sætið er staðreynd um þessa mundir.
Grótta hefur komið mörgum á óvart til þessa fyrir öflugan leik á sama tíma og frammistaða FH hefur valdið vonbrigðum. Hafnarfjarðarliðið er næst neðst í deildinni með tvö jafntefli og tvö töp til þessa. Grótta hefur ekki tapað í tveimur heimaleikjum á tímabilinu. Skarð verður fyrir skildi í liði Gróttu af fjarveru Birgis Steins Jónssonar. Hann tekur út leikbann.
Loks sækja ÍR-ingarliðsmenn KA heim en þeir síðarnefndu mæta í nýjum búningum í kvöld, eflaust einhverjum til ánægju. ÍR-ingum var ekki spáð góðu gengi fyrir tímabilið en það hefur ekki komið í veg fyrir að þeir eru með fjögur góð stig í húsi eftir fjóra leiki. KA er þrepi neðar með þrjú stig. KA-liðið er alltaf harðsnúið heim að sækja og verður fróðlegt að sjá hvernig baráttuglöðum ÍR-ingum vegnar í KA-heimilinu.
Olísdeild karla, 5. umferð:
Vestmannaeyjar: ÍBV – Stjarnan, kl. 18 – sýndur á ÍBVtv.
Hertzhöllin: Grótta – FH, kl. 19.30 – sýndur á Gróttatv.
KA-heimilið: KA – ÍR, kl. 19.30 – sýndur á KAtv.
Staðan og næstu leikir í Olísdeild karla.
Handbolti.is fylgist með gangi leikja kvöldsins.