Tólfta umferð Olísdeildar karla hefst í kvöld að Varmá þegar leikmenn Hauka koma í heimsókn til Aftureldingar. Leiknum er flýtt vegna ferðar Hauka til Aserbaísjan þar sem fyrir þeim liggur að mæta Kur í borginni Mingachevir á laugardag og sunnudag í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar.
Afturelding er í 2. sæti Olísdeildar með 17 stig eins og FH-ingar sem berjast á öðrum vettvangi í kvöld. Haukar sitja í 5. sæti með 12 stig. Þeir töpuðu fyrir Val á síðasta föstudag á sama tíma og Afturelding fagnaði sigri á Gróttu.
Einnig verður leikið í Grill 66-deild í kvöld á Ísafirði. Til stendur að koma á dagskrá viðureign Harðar og HK2 sem varð að slá á frest á dögunum vegna slæms veðurs og bikarleiks um líkt leyti.
Hvalreki í Hafnarfirði
Síðast en ekki síst taka Íslandsmeistarar FH á móti franska liðinu Fenix Toulouse í Kaplakrika klukkan 19.45 í sjöttu og síðustu umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik karla. Koma Fenix Toulouse er hvalreki fyrir handknattleiksunnendur. Liðið er í fjórða sæti í afar sterkri úrvalsdeild í Frakkland með 16 stig að loknum tíu leikjum. Valinn maður er í hverju rúmi áhafnarinnar. Þar af leiðandi er um sannkallaðan toppslag að ræða á milli efsta liðs Olísdeildarinnar og eins besta liðs franska handknattleiksins í Kaplakrika í kvöld.
Leikir kvöldsins
Olísdeild karla:
Varmá: Afturelding – Haukar, kl. 19.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Grill 66-deild karla:
Ísafjörður: Hörður – HK2, kl. 19.30 – leikurinn hefur verið sleginn af – HK2 gaf leikinn. Engin tilkynning hefur borist frá HSÍ vegna málsins.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.
Evrópudeild karla, 6. umferð:
Kaplakriki: FH – Fenix Toulouse, kl. 19.45.
Valur á einnig leik í Evrópudeildinni í kvöld, gegn Porto í Portúgal. Sú viðureign hefst einnig kl. 19.45.
Evrópudeild karla “24 – riðlakeppni 32-liða – 5. umferð, úrslit, staðan
Uppfært kl. 14.