- Auglýsing -
- Auglýsing -

Dagur og Hafþór unnu í háspennuleik í Sør Amfi – myndskeið

Dagur Gautason leikmaður ÖIF Arendal. Mynd/Skapti Hallgrímsson, Akureyri.net
- Auglýsing -

Dagur Gautason, Hafþór Már Vignisson og félagar í ØIF Arendal unnu Elverum í æsispennandi leik, 29:28, í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik á heimavelli í dag. Bæði lið fengu tækifæri til þess að skora á síðustu 10 sekúndum leiksins en tókst ekki. Leikmenn Arendal fengu opið færi til að innsigla sigurinn en tókst ekki að skora. Elverum-liðið brunaði þá fram og Tobias Grøndahl átti bylmingsskot í aðra stöng Arendal-marksins.


Dagur skoraði sex mörk, þar af eitt úr vítakasti, fyrir Arendal-liðið og heldur þar með áfram að leika stórt hlutverki. Hafþór Már skoraði ekki mark í dag. Sömu sögu er að segja af Árna Bergi Sigurbergssyni. Elverum jafnaði metin, 27:27, þegar hálf fjórða mínúta var til leiksloka. Eftir það var stigin darraðadans á fjölum Sør Amfi i Arendal.

ØIF Arendal er ásamt meisturum Kolstad með sjö stig þegar fimm umferðum er lokið.

Þetta var fyrsta tap Elverum í deildinni á leiktíðinni. Liðið situr í öðru sæti með átta stig að loknum fimm leikjum. Róbert Sigurðarson og leikmenn Drammen eru efstir með níu stig eftir sigur á Fjellhammer í gær, eins og handbolti.is sagði frá í morgun.

Öruggt hjá Kolstad

Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði fimm mörk, þar af eitt þeirra úr vítakasti, í öruggum sigri Kolstad á Kristiansand, 33:24, á heimavelli. Kolstad var átta mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:9. Simen Ulstad Lyse var markahæstur leikmanna Kolstad með níu mörk. Helsta stjarna liðsins, Sander Sagosen, var ekki með í dag.

Markvörðurinn Torbjørn Sittrup Bergerud, sem vart varði skot í leik Kolstad og Zagreb í Meistaradeild Evrópu í síðustu viku herti upp hugann í dag og varði 14 skot, 50%.

Staðan á einni síðu

Hægt að kynna sér stöðuna í mörgum deildum evrópska handknattleiksins á sérstakri stöðusíðu sem sett hefur verið upp undir flipanum staða og leikir og m.a. má nálgast hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -