- Auglýsing -
- Auglýsing -

Daníel Freyr rær á önnur mið í sumar

Daníel Freyr Andrésson kveður Lemvig á Jótlandi eftir keppnistímabilið. Mynd/Lemvig-Thyborøn
- Auglýsing -

Handknattleiksmarkvörðurinn Daníel Freyr Andrésson færir sig um set í sumar eftir eins árs dvöl hjá danska úrvalsdeildarliðinu Lemvig-Thyborøn Håndbold. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins í morgun. Þar segir að Daníel Freyr hafi í hyggju að róa á önnur mið í sumar og að Lemvig vilji ekki standa í vegi þess. Ekki kemur fram hver verður næsti áfangastaður markvarðarins.


Daníel Freyr kom til Lemvig á síðasta sumri eftir tveggja ára veru hjá Guif í Eskilstuna í Svíþjóð. Áður lék hann með SönderjyskE frá 2014 til 2016, hjá Ricoh í Svíþjóð 2016 til 2019 og var með Val frá 2019/2020. Daníel Freyr lék upp yngri flokka með FH og var í meistaraflokki til 2014. Hann var m.a. í Íslandsmeistaraliði FH vorið 2011 og í silfurliðinu árið eftir.


Daníel Freyr, sem er 33 ára gamall, var viðloðandi landsliðshópinn leiktíðina 2021/2022. Hlutfallsmarkvarsla hans á leiktíðinni er 23,2% samkvæmt samantekt á heimasíðu úrvalsdeildarinnar.


Lemvig er í 13. og næst neðsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar eftir 19 umferðir af 26 með 10 stig. Daníel Freyr mun ljúka keppnistímabilinu með Lemvig. Eftir deildarkeppnina tekur væntanlega við keppni í neðri hluta úrvalsdeildarinnar um að forðast að fylgja lánlausu liði HC Midtjylland niður um deild.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -