- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Danir fyrstir í undanúrslit á EM – tóku Svía með sér

Danski markvörðurinn Emil Nielsenl reyndist Norðmönnum erfiður í kvöld eins og fleiri andstæðingum Dana á EM. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Danir voru í kvöld fyrstir til þess að innsigla sér sæti í undanúrslitum Evrópumótsins í Þýskalandi. Þeir unnu Norðmenn afar örugglega, 29:23, í síðasta leik kvöldsins í milliriðlinum sem leikinn er í Hamborg. Með sigrinum tryggðu Danir Evrópumeisturum Svía einnig sæti í undanúrslitum. Hver sem úrslit lokaumferðarinnar verða á þriðjudaginn er öruggt að sænska landsliðið fylgir heimsmeisturum Dana í undanúrslit.

Frakkar þykja líklegir til þess að fara í undanúrslit um milliriðil eitt en óvíst er hver fylgir þeim eftir. Það gæti skýrst að einhverju leyti eftir leikina sem fram fara á morgun.

Norska landsliðið átti aldrei möguleika gegn Dönum í kvöld. Heimsmeistararnir léku eins og þeir sem valdið hafa. Emil Nielsen stóð vaktina í markinu og gerði sóknarmönnum norska landsliðsins gramt í geði. Hann varði 15 skot, 39%.

Vinstri hornamaðurinn Magnus Landin skoraði 3000. mark danska landsliðsins nærri leikslokum þegar hann gerði 27. markið, 27:21. Til samanburðar þá hefur íslenska landsliðið skorað 2156 mörk í lokakeppni EM.

Staðan í hálfleik var 18:11, Dönum í hag.

Hans Lindberg, Simon Pytlick og Mathias Gidsel skoruðu fimm mörk hver fyrir danska landsliðið en alls skoruðu 11 af 14 útileikmönnum liðsins a.m.k. eitt mark.

Alexandre Blonz var markahæstur í norska landsliðinu með fimm mörk. Sander Sagosen var næstur með fjögur.

Kátir Svíar eftir sigur á portúgalska landsliðinu í Hamborg í kvöld. Mynd/EPA

Portúgal var engin fyrirstaða

Fyrr í kvöld unnu Svíar öruggan sigur á Portúgölum, 40:33, eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir í hálfleik, 19:15. Eins vel og Portúgalar hafa leikið á mótinu þá tókst þeim lengst af leiksins ekki að standast Svíum snúning.

Lucas Pellas fór á kostum í sænska landsliðinu. Hann skoraði 10 mörk í 13 skotum. Felix Claar var næstur með sex mörk. Martim Costa skoraði átta mörk fyrir portúgalska landsliðið og línumaðurinn slyngi, Luís Frade, skoraði sjö sinnum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -