Danir urðu í kvöld fyrstir til þess að leggja heims- og Evrópumeistara Noregs á Evrópumótinu í Slóveníu, 31:29, og tryggja sér þar með efsta sætið í milliriðli eitt á mótinu. Það þýðir að Danir leika gegn Svartfellingum í undanúrslitum á föstudaginn meðan Noregur leikur við Frakkland. Frakkar eru með eina taplausa liðið á mótinu og virðast lítt árennilegt. Fyrir því fengu leikmenn spænska landsliðsins að finna í kvöld þegar þeir töpuðu með 13 marka mun, 36:23.
Hollendingar og Svíar mætast í leiknum um fimmta sætið sem hefur ekki mikið vægi þar sem ljóst er að Hollendingar eru þegar öruggir um farseðli á HM á næsta ári eins og Frakkar og Svartfellingar. Gestgjafar HM verða Danir, Norðmenn og Svíar.
Átján tapleikir
Eftir átján sigurleiki í röð á danska landsliðinu varð norska landsliðið að sætta sig við tap í kvöld. Eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik, 13:12, þá var danska liðið sterkara í þeim síðari. Sandra Toft varði vel í markinu í síðari hálfleik á sama tíma og stöllur hennar í norska markinu voru langt frá sínu besta. Sóknarnýtingin var fyrir vikið betri hjá Dönum. Þeir komust fjórum mörkum yfir, 29:25, þegar sex mínútur voru eftir. Þá tók Þórir Hergeirsson, landsliðsþjálfari Noregs, síðasta leikhlé sitt, aðeins nærri þremur mínútum eftir að hann tók fyrra leikhléið í hálfleiknum.
Danir urðu tveimur færri um skeið undir lokin. Norðmenn nýttu sér það til þess að minnka muninn í eitt mark, 29:28. Henny Reistad átti skot í slá danska marksins í stöðunni 30:28, þegar hálf önnur mínúta var eftir. Segja má að þá hafi farið besti möguleiki Norðmanna á að eiga möguleika á öðru stiginu úr leiknum. Eftir það var um kapphlaup við tímann að ræða.
Ekki að sökum að spyrja
„Danir voru einfaldlega betri en við að þessi sinni. Þegar við náum ekki betri leik gegn Dönum þá er ekki að sökum að spyrja enda Danir með mjög gott lið,“ sagði Þórir Hergeirsson í samtali við VG og bætti við það norska liðið hafi fengið fimm til sex mörkum of mikið á sig í leiknum.
„Næst er að fara yfir það hvað brást og hvað við verðum að gera betur fyrir erfiðan leik á föstudaginn,“ sagði Þórir ennfremur.
Mörk Noregs: Nora Mørk 8, Henny Reistad 5, Malin Larsen 4, Kristine Breistøl 3, Anniken Wollik 2, Stine Oftedal 2, Maren Aardahl 1, Stine Skogrand 1, Emilie Hovden 1, Sunniva Næs 1, Vilde Ingstad 1.
Varin skot: Sandra Toft 11, 30% – Althea Reinhardt 1, 33%.
Mörk Danmerkur: Anne Mette Hansen 7, Simone Petersen 5, Louise Burgaard 3, Sarah Iversen 3, Mette Tranborg 3, Michala Møller 3, Kristina Jørgensen 3, Trine Østergaard 1, Kathrine Heindahl 1, Emma Cecilie Friis 1, Rikke Iversen 1.
Varin skot: Katrine Lunde 10, 29% – Silje Solberg 1, 14%.
EM kvenna22 – milliriðlakeppni leikjadagskrá, úrslit