- Auglýsing -
- Auglýsing -

Dásamlegt að leika og vinna í KA-heimilinu í kvöld

Leikmenn KA/Þórs fagna sigri í leik í vor þegar liðið varð Íslandsmeistari. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Það verður ekkert gefið eftir á Hlíðarenda á sunnudaginn og ljóst að við verðum að eiga toppleik til þess að vinna þar,” sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir, leikmaður KA/Þórs í samtali við handbolta.is eftir sigur deildarmeistaranna á Val í fyrsta úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í KA-heimilinu í kvöld, 24:21.

Anna Þyrí Halldórsdóttir á auðum sjó og við að skora eitt af þremur mörkum sínum í kvöld. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson


„Það var frábært að geta hafið einvígið á sigri til viðbótar við hversu dásamlegt það var að leika í KA-heimilinu í kvöld fyrir framan alla þessa áhorfendur og þá frábæru stemningu sem þeir mynduðu í leiknum. Allt gaf þetta okkur mikla orku fyrir utan að gera leikinn mikið skemmtilegri að fylgjast með. Ég vona svo sannarlega að fólk flykkist suður á leikinn á sunnudaginn.

Við verðum hinsvegar að vera vel meðvitaðar um að við höfum ekki unnið annað en þennan leik. Sigurinn er aðeins áfangi á lengri leið,“ sagði Rut og tók undir með blaðamanni að kálið væri ekki sopið þótt í ausuna væri komið.

Kaflaskil

Rut sagði að ákveðin kaflaskil hafi orðið í leiknum þegar Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs ákvað að stilla upp sjö leikmönnum í sókn þegar 17 mínútur voru til leiksloka og KA/Þór var tveimur mörkum undir, 16:14.


„Við vorum að elta framan af og vorum komnar tveimur mörkum undir þegar breytt var í sjö á sex í sókninni. Með þeirri breytingu þá tókst okkur að snúa leiknum okkur í hag,“ sagði Rut sem var markahæst í liði KA/Þórs með átta mörk.

Lonac varði mjög vel

„Á þessum kafla varði Matea [Lonac] líka mjög vel. Það ásamt breytingunni á sóknarleiknum hjálpaði okkur verulega við að ná tökum á leiknum. Síðan var varnarleikurinn mjög góður á lokakaflanum eftir við höfum jafnað okkur eftir að Martha [Hermannsdóttir] fékk sína þriðju brottvísum.“

Matea Lonac, markvörður KA/Þórs fagnar meðan Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Lovísa Thompson, markahæstu leikmenn KA/Þórs og Vals liggja eftir „systrabyltu.“ Mynd /Egill Bjarni Friðjónsson

Skynsemi í sóknarleiknum

Rut sagði ennfremur að sóknarleikurin hafi gengið vel þótt ekki hafi tekist að skora í hverri sókn. Liðið hafi ekki oft tapað boltanum illa. Fyrir vikið hafi Valsliðið ekki fengið mörg hraðaupphlaup. Hún segir leikmenn KA/Þórsliðsins hafi lagt áherslu á að ljúka sóknunum á skynsamlegan hátt til þess einmitt m.a. að koma í veg fyrir að Valur fengi mörg tækifæri til þess að sækja hratt. „Valur er með frábært lið. Einn af styrkleikum þess er að sækja hratt og því má ekki gleyma þegar leikið er gegn Valsliðinu,“ sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir, leikmaður KA/Þórs í samtali við handbolta.is í kvöld.

Aldís Ásta Heimisdóttir, leikmaður KA/Þórs, leitar að smugu á varnarvegg Vals. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -