„Við þurfum að læra að sætta okkur við það sem við höfum á meðan félögin hjálpa ekki til við að búa til dómara eins og staðan er í dag. Dómarar spretta ekki upp af götunni og það er ekki einkamál starfandi dómara að búa til nýja dómara,“ skrifar Guðjón L. Sigurðsson handknattleiksdómari og eftirlitsmaður til ríflega 50 ára í pistli og fyrrverandi stjórnarmaður HSÍ á Facebook undir fyrirsögninni: Boðleg dómgæsla – Boðleg fréttamennska.
Tilefni pistils Guðjóns eru skrif á mbl.is eftir leiki í Olísdeild karla í handknattleik í síðustu viku þar sem „fréttamönnum mbl.is þótti ástæða til að fjalla um óboðlega dómgæslu. Sleggjur eins og „..margar stórskrítnar ákvarðanir sem pirraði leikmenn beggja liða“, „..dómgæslan í dag var ekki á úrvalsdeildarstigi“, „Þetta er bara því miður ekki boðlegt í efstu deild“ og „Þeir voru bara aðalmennirnir á vellinum” sáust í umfjöllun um dómara leikjanna þegar rætt var við þjálfara tapliðana,“ segir í pistli Guðjóns þar sem hann bætir við að annar þjálfarinn hafi verið spurður leiðandi spurningar um dómgæsluna í leiknum.

Er það boðlegt?
„Er það boðlegt að fréttamenn spyrji leiðandi spurninga og þykir mönnum það „vitrænt“ eins og þjálfaranum sem gat þá tjáð sig um dómarana án þess að minnast á það að fyrra bragði eins og oft áður,“ veltir Guðjón fyrir sér í pistlinum.
Margir reynt en helst úr lestinni
Guðjón segir dómara, líkt og leikmenn leggja mikið á sig til að dæma í efstu deild. Þangað komist enginn nema að hann leggi á sig mikla vinnu, eins og leikmenn. Margir hafi reynt en helst úr lestinni og eru m.a. þjálfarar í efstu deild í dag.
„Þeir voru ágætir dómarar en áttu misjafna leiki eins og gengur. Hvort það rak þá til annarra starfa skal ósagt látið en þeir eru ekki mikið að hjálpa fyrrverandi félögum sínum í dag,“ skrifar Guðjón og bætir við.
Ekki skipt út í miðjum leik
„Þegar leikmönnum gengur illa þá grípur þjálfarinn inn í og skiptir þeim útaf en það er ekki eins og dómarar sitji á varamannabekkjum tilbúnir að leysa félaga sína af hólmi í miðjum leik þegar illa gengur. Í stað þess að sætta sig við það sem þeir fá ekki breytt meðan á leik stendur þá grípa þjálfarnir til þess að mótmæla dómum og reyna að hafa áhrif á þá þannig að þeir séu „sanngjarnir“ eins og annar þjálfarinn óskaði eftir. Í hverju felst þessi sanngirni?,“ spyr Guðjón L. Sigurðsson m.a. í beittum pistli sem lesa má í heild sinni á Facebook.
(Millifyrirsagnir eru ritaðar af handbolti.is).