- Auglýsing -
- Auglýsing -

Dómarar viðurkenna mistök – rauða spjald Kopyshynskyi dregið til baka

Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson rýna í skjáinn að Varmá í gærkvöld. Mynd/Raggi Óla
- Auglýsing -

Dómarar leiks Aftureldingar og Hauka í úrslitakeppni Olísdeildar karla í handknattleik hafa dregið til baka rauða spjaldið sem þeir gáfu Ihor Kopyshynskyi leikmanni Aftureldingar á síðustu sekúndum leiksins að Varmá í gærkvöld. Þeir viðurkenna mistök, segja ákvörðunina hafa verið ranga eftir að hafa skoðað upptökur frá fleiri sjónarhornum eftir að leiknum lauk. Þetta kemur fram í úrskurði aganefndar HSÍ sem var birtur fyrir stundu.

Ákvörðunin kann að hafa haft afdrifarík áhrif á úrslit leiksins.

Velta má fyrir sér af hverju dómararnir fengu ekki að sjá atvikið frá fleiri sjónarhornum áður en þeir tóku ákvörðun sína.

Svavar Ólafur Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson dómarar viku Kopyshynskyi af leikvelli með rautt spjald og dæmdu Haukum vítakast sem þeir jöfnuðu metin úr og náðu þar með í framlengingu. Haukar unnu leikinn í framlengingunni.

Eftir því sem komist verður næst var það mat dómaranna eftir fyrstu skoðun af atvikinu af sjónvarpsupptöku, meðan gert var hlé á leiknum, að Kopyshynskyi hafi hindrað leikmann í að taka aukakast til þess að unnt væri að halda leik áfram þær átta sekúndur sem eftir voru.

Fram kemur í niðurstöðu aganefndar að í agaskýrslu dómara komi fram að þeir hafi ekki getað skoðað atvikið frá öllum sjónarhornum meðan á leiknum stóð. Eftir leikinn hafi þeir séð það sem gerðist frá fleiri sjónarhornum. Að þeirra skoðun lokinni sé ljóst að leikmaður Aftureldingar hafi ekki gerst brotlegur samkvæmt reglu 8.10 c). Útilokunin hafi þess vegna verið dregin til baka þar sem hún eigi sér ekki stoð lengur.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Sjá nánar í úrskurði aganefndar hér fyrir neðan:

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -