- Auglýsing -
- Auglýsing -

Dramatík í Garðabæ

Tandri Már Konráðsson fyrirliði Stjörnunnar. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net
- Auglýsing -

Ekki vantaði dramatík og spennu í síðustu mínútu leiks Stjörnunnar og Gróttu í TM-höllinni í kvöld þar sem liðin áttust við í Olísdeild karla. Í jafnri stöðu, 27:27, misstu Gróttumenn boltann klaufalega þegar 40 sekúndur voru til leiksloka. Stjarnan hóf þá sókn sem lauk með því að Sverrir Eyjólfsson skoraði af línunni þegar að því er virtust tvær sekúndur voru til leiksloka. Gróttumenn tóku umsvifalust leikhlé. Að því loknu kom í ljós að þrjár sekúndur voru eftir. Tíminn nægði til þess að Satoru Goto kom skoti á mark Stjörnunnar sem buldi á stönginni rétt í þann mund sem leiktíminn var úti.

Stjörnumenn fögnuðu sætum sigri, 28:27, í hörku leiks sem gat svo sannarlega farið á báða vegu. Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 13:13. Stjarnan er þar með komin með 14 stig eins og fleiri lið um miðja deild.

Grótta er með níu stig en það er skiljanlegt að liðsmenn hafi verið vonsviknir í leikslok. Eins og leikurinn spilaðist hefur skiptur hlutur e.t.v. verið sanngjörn niðurstaða eins og í fyrri viðureigninni á Seltjarnarnesi í haust. Þessi leikur var hinsvegar mikið skemmtilegri og betur leikinn af beggja hálfu en leikurinn í Hertzhöllinni í september.

Viðureignin í TM-höllinni í kvöld var jöfn nánast frá upphafi til enda. Stjörnumenn léku með sjö menn í sókn lengst af fyrri hálfleiks. Það skilaði góðum árangri en vörn og markvörslu var ábótavant svo aldrei náðu heimamenn neinu forskoti.

Í síðari hálfleik var áfram jafnt á flestum tölum. Stjarnan náði tveggja marka forskoti, 27:25, tapaði því niður í spennu á endasprettinum.

Mörk Stjörnunnar: Tandri Már Konráðsson 4, Björgvin Þór Hólmgeirsson 4, Sverrir Eyjólfsson 4, Brynjar Hólm Grétarsson 3, Starri Friðriksson 3/2, Hrannar Bragi Eyjólfsson 3, Hafþór Már Vignisson 3/1, Dagur Gautason 2, Pétur Árni Hauksson 2.
Varin skot: Adam Thorstensen 11/1, 33,3% – Sigurður Dan Óskarsson 1, 16,7%.
Mörk Gróttu: Birgir Steinn Jónsson 6, Andri Þór Helgason 5/1, Gunnar Dan Hlynsson 5, Daníel Örn Griffin 4, Lúðvík Thorberg Arnkelsson 2, Ólafur Brim Stefánsson 2, Satoru Goto 2, Hannes Grimm 1.
Varin skot: Stefán Huldar Stefánsson 11, 28,2%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -