Ólafur Andrés Guðmundsson tekur ekki þátt í fleiri leikjum með íslenska landsliðinu í handknattleik. Hann fékk þungt högg á vinstra lærið á æfingu landsliðsins í Gautaborg í gær. Blæddi mikið inn á vöðvann svo lærið blés út. Vonir standa til að það versta sé yfirstaðið.
Ólafur Andrés upplýsti um það á Instagram eftir á hádegið að þátttöku sinni á á HM 2023 væri því miður lokið.
„Drauma HM endaði ekki alveg eins og ég hafði vonað, því miður er mótið búið fyrir mig vegna meiðsla á læri. Þvílík upplifun að fá að spila stórmót á sínum heimavelli og með þennan stuðning.
Eitthvað sem ég er ótrúlega þakklátur fyrir og mun aldrei gleyma! Nú mun ég gera eins og restin af þjóðinni og standa við bakið á strákunum því þetta er rétt að byrja,“ skrifaði hann í færslu á Instagram síðu sinni.
Ólafur Andrés er einn reyndasti leikmaður landsliðsins og hefur verið með á flestum stórmótum frá árinu 2010. Hann er núna leikmaður GC Amicita Zürich í Sviss.
Milliriðill 2 (Gautaborg) 18. janúar: Portúgal – Brasilía, kl. 14.30. Grænhöfðaeyjar – Ísland, kl. 17. Svíþjóð – Ungverjaland, kl. 19.30. 20. janúar: Brasilía – Ungverjaland, kl. 14.30. Grænhöfðaeyjar – Portúgal, kl. 17. Ísland – Svíþjóð, kl. 19.30. 22. janúar: Grænhöfðaeyjar – Ungverjaland, kl. 14.30. Brasilía – Ísland, kl. 17. Svíþjóð – Portúgal, kl. 19.30.