- Auglýsing -
- Auglýsing -

Draumurinn nálgast með hverjum degi sem líður

Hákon Daði Styrmisson í leik með landsliðinu í nóvember gegn Litáen. Mynd/Guðmundur Lúðvíksson
- Auglýsing -

„Draumurinn færist nær með hverjum deginum,“ sagði Hákon Daði Styrmisson, leikmaður ÍBV og verðandi leikmaður Gummersbach í Þýskalandi þegar handbolti.is heyrði í honum í dag í kjölfar þess að í morgun var opinberað það sem legið hefur í loftinu síðustu daga að Eyjamaðurinn knái verður liðsmaður hins fornfræga handknattleiksliðs Gummersbach í Þýskalandi frá og með næsta keppnistímbili.


Hákon Daði, markahæsti leikmaður Olísdeildarinnar um þessar mundir, hefur skrifað undir tveggja ára samning við Gummersbach og verður undir handarjaðri Guðjóns Vals Sigurðssonar á næsta keppnistímabili.

Gefst ekki betra tækifæri

„Tækifærið gerist ekki mikið betra fyrir mig með Guðjón Val sem þjálfara og þá góðu stöðu sem félagið er í. Ég hlakka ótrúlega mikið til en um leið er tilhlökkun og stress. Stressið ekki slæmt, málið að vinna með. Aðalatriðið er bara að vera klár í slaginn þegar ævintýrið hefst,“ sagði Hákon Daði sem segir gott að takast á við nýjar áskoranir og ekki verra að gera það undir handleiðslu Guðjóns Vals sem lék einnig í vinstra horni eins og Hákon Daði. „Það hefur enginn leikið þá stöðu betur en Guðjón Valur. Þess vegna verða það forréttindi fyrir mig að fá aðeins að plokka þekkingu úr kollinum á honum.“


Ekki spillir heldur fyrir að auk Guðjóns Vals og fjölskyldu er fyrrverandi samherji Hákons Daða hjá ÍBV, Elliði Snær Viðarsson, leikmaður Gummersbach. „Það er stór plús að hitta Elliða fyrir hjá félaginu. Ég hef spilað með honum og við þekkjumst mjög vel.“

Breyting á högum

Hákon Daði er 23 ára gamall og hefur leikið með ÍBV sinn feril að tveimur árum undanskildum sem hann var í herbúðum Hauka frá 2016 til 2018. Hann segir að pressan verði óneitanlega meiri á stærra sviði eins og því sem hann stígur á í Þýskalandi auk þess sem ljóst er að breyting verði á högum hans. Í Þýskalandi verði handboltinn aðalstarfið ólíkt því sem nú sé þar sem hann stundar vinnu með æfingum og keppni.

Gott umhverfi

„Það er líka gaman að fara í félag þar sem mikill metnaður er fyrir að ná árangri, hvort sem liðið verður í efstu eða næst efstu deild á næsta keppnistímabili. Gummersbach er gamalt stórveldi og metnaðurinn fyrir að ná árangri er fyrir hendi,“ sagði Hákon Daði.

Bankar fastar á dyrnar

Hákon Daði segist gera sér vonir um að eiga meiri möguleika á að banka fastar á dyr landsliðsins ef hann standi sig í stykkinu í Þýskalandi. Hann geri sér hinsvegar grein fyrir að staða vinstri hornamanna í landsliðinu sé og hafi verið vel mönnuð um langt skeið. Þar af leiðandi verði alls ekkert sjálfgefið að vinna sér sæti í landsliðinu. „Landsliðsþjálfarinn hefur úr mörgum að velja en það mælir ekkert gegn því að maður keppi við menn. Maður færist nær landsliðinu um leið og sviðið stækkar sem maður stendur á.“

Metnaður fyrir ÍBV

Hákon Daði flytur til Gummersbach í sumar og á að mæta á fyrstu æfingu 20. júlí. „Þetta verður mikið ævintýri og ég hlakka til. En þangað til er það ÍBV. Metnaður minn fyrir að vinna titla með ÍBV hefur ekkert breyst. Við eigum alltaf möguleika meðan einhverjir leikir eru eftir. Haukar líta vel út um þessar mundir en staðan er samt alltaf sú sama í upphafi leikja.


Það er gott að þetta mál er frá. Þetta er frétt dagsins og síðan verður einhver önnur frétt efst á baugi á morgun og lífið heldur áfram með sínum áskorunum,“ sagði Hákon Daði Styrmisson, handknattleiksmaður, í samtali við handbolta.is í dag.

Hákon Daði Styrmisson hefur skoraði 138 mörk fyrir ÍBV í Olísdeildinni á keppnistímabilinu og er markahæsti leikmaður deildarinnar um þessar mundir. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -