- Auglýsing -
- Auglýsing -

Dregur sig í hlé vegna anna

Árni Steinn Steinþórsson. Mynd/FB-síða Selfoss handbolta
- Auglýsing -

„Ég reikna ekki með að vera með í handboltanum í vetur vegna anna á öðrum vígstöðvum,“ sagði handknattleiksmaðurinn og læknaneminn, Árni Steinn Steinþórsson, þegar handbolti.is náði tali af honum í morgun. Árni Steinn hefur undanfarin ár leikið með uppeldisfélagi sínu Selfossi, og var m.a. í Íslandsmeistaraliði félagsins vorið 2019 þegar Selfoss varð meistari í fyrsta sinn í meistaraflokki karla.

„Ég er á fjórða ári í læknisfræði sem er mestmegnis verklegt nám og því fylgir talsverð vaktavinna. Það er erfitt að samtvinna handboltann og námið, að minnsta kosti ef maður ætlar að vera af fullum krafti á báðum vígstöðvum,“ sagði Árni Steinn  sem lauk BSc námi í sjúkraþjálfun áður en hann söðlaði um og sneri sér að læknisnáminu.

Árni Steinn lék 10 leiki og skoraði 37 mörk með Selfoss-liðinu í Olísdeildinni á síðustu leiktíð áður en hann sleit krossband í nóvember.  

Árni Steinn er 29 ára gamall og hefur verið einstaklega óheppinn með meiðsli á ferlinum og m.a. tvisvar sinnum slitið krossband auk fleiri erfiðra meiðsla eins og langvarandi meiðsla í öxl. Hann lék upp yngri flokka með Selfossi en sló í gegn, ef svo má segja, með Haukum á árunum 2011 til 2015 og var í Íslandsmeistaraliði félagsins síðasta árið.

Um skeið átti Árni Steinn sæti í landsliðinu. Hann fór út til Danmerkur og var um skeið hjá SönderjyskE. Eftir að Árni Steinn kom heim hefur hann verið í herbúðum Selfoss-liðsins.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -