- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ef við nýtum ekki færin vinnum við ekki leiki

Kristinn Björgúlfsson fyrrverandi þjálfari ÍR. Mynd/Þorgils G - Fjölnir handbolti

„Þegar við skorum ekki úr dauðafærunum þá vinnum við ekki leikina,“ sagði Kristinn Björgúlfsson þjálfari ÍR eftir fjögurra marka tap, 27:23, fyrir Fjölni í öðrum leik liðanna í umspili um sæti í Olísdeild karla í Dalhúsum í kvöld. ÍR-ingar voru undir allan leikinn og mátti e.t.v. teljast góðir að sleppa við fjögurra marka tap eftir að hafa verið sjö til átta mörkum undir á köflum framan af síðari hálfleik.


„Við vorum mjög óánægðir með fyrri hálfleikinn þótt við fengjum aðeins 12 mörk á okkur, þar af þrjú út vítum. Á móti kom að við skoruðum aðeins sjö mörk, klikkuðum á sex dauðafærum og töpuðum boltanum fimm sinnum. Það fór með okkur í kvöld,“ sagði Kristinn sem virtist hafa verið aðeins sáttari við síðari hálfleikinn.


„Síðari hálfleikurinn var meiri tilraunastarfsemi og svo þegar öll sund virtust lokuð undir lokin þá köstuðum við frá okkur öllum vonum. Það var ekkert annað að gera úr því sem komið var,“ sagði Kristinn ennfremur.

Líf, fjör og stress

ÍR vann fyrsta leikinn með 12 marka mun og lenti svo átta mörkum undir í kvöld. Kristinn sagði það hafa verið viðbúið að sveiflur yrðu á milli leikja liðanna. „Það er stress í mönnum, líf í tuskunum enda mikið undir, margir áhorfendur og hávaði og læti. Eitthvað sem menn eru ekkert endilega vanir í Grill-deildinni. Svona verða leikirnir enda búum við okkur undir fimm leiki.


Við tökum okkur saman í andlitinu eftir þennan leik og verðum klárir í leikinn á heimavelli á fimmtudaginn. Engin spurning,“ sagði Kristinn Björgúlfsson þjálfari ÍR hvergi af baki dottinn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -