- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eftir kvöldmat biðu mín tvö símtöl frá Snorra

Stiven Tobar Valencia mættur á hótel íslenska landsliðsins í Zagreb. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Ég var á æfingamóti með Benfica í Frakklandi þar sem til stóð að leika tvo æfingaleiki í Nantes. Eftir kvöldmat á fimmtudaginn biðu mín tvö ósvöruð símtöl frá Snorra. Þá bjóst ég við að hann væri að kalla mig og það reyndist vera raunin,“ sagði Stiven Tobar Valencia sem tók sæti í landsliðshópnum í handknattleik í gær eftir að hafa verið kallaður í skyndi til Zagreb eftir að Bjarki Már Elísson meiddist á hné.

Bras að ná flugi

„Það var svolítið bras þegar maður þarf að ná fyrsta flugi. Eftir samtal mitt og Snorra þá var ég í sambandi við Robba [Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ] sem fann flug eldsnemma í gærmorgun frá Nantes. Ég var kominn rétt fyrir leikinn við Króata,“ segir Stiven sem gat ekki tekið þátt.


Stiven var í 35 manna landsliðshópnum sem mátti velja úr til þátttöku á mótinu. Hann hefur hinsvegar ekkert leikið með landsliðinu síðan í leikjum við Grikki í mars á síðasta ári. Stiven sagði að þrátt fyrir að hann hafi ekki verið valinn í keppnishópinn sem fór til Zagreb þá bjó hann sig undir að vera í startholunum ef eitthvað kæmi upp á.

„Ég var tilbúinn ef eitthvað myndi gerast. Ég átti samt ekki von á þessu akkúrat núna því strákarnir voru búnir að spila mjög vel á mótinu. En þetta var mjög óvænt,“ segir Stiven Tobar sem var á meðal áhorfenda á tapleiknum við Króata í gærkvöld.

Stutt á milli

„Leikurinn var ekki fallegur. En maður sá þarna hvað er stutt á milli í íþróttum. Ég get alveg ímyndað mér hvernig strákunum líður eftir að hafa leikið mjög vel á mótinu. Einn lélegur hálfleikur og þar með getur mótið farið úr okkar höndum. Þetta er ógeðslega fúlt,“ segir Stiven Tobar Valencia tilbúinn í slaginn gegn Argentínu á morgun.


Lengra viðtal við Stiven Tobar er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -