- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ég á mér drauma

Bjarki Már Elísson er að fara á sjöunda stórmótið með íslenska landsliðinu. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Ég hef aldrei orðið var við eins mikla spennu og áhuga og ríkir núna í kringum landsliðið síðan ég fór fyrst á stórmót. Ég er ánægður með áhugann sem er ólíkt skemmtilegri en þegar manni var frekar klappað á bakið og sagt gangi ykkur vel. Mér finnst skemmtilegra að vera í þessari stöðu sem við erum í núna. Vonandi tekst okkur að standa undir vonum,“ sagði Bjarki Már Elísson landsliðsmaður í handknattleik og einn HM-faranna þegar handbolti.is hitti hann að máli á blaðamannfundi fyrir nýliðna helgi áður en landsliðshópurinn fór af landi brott.

Liggur fyrst og fremst hjá okkur

„Kröfurnar eru fyrir hendi innan liðsins. Við eigum okkar markmið og drauma. Við gerum allt til þess að uppfylla eigin markmið. Þótt stuðningur þjóðarinnar sé mikill þá liggur málið hjá okkur. Ég veit að allir átta sig á því,“ sagði Bjarki Már sem á leiðinni á sitt fjórða heimsmeistaramót. Hann var fyrst með á HM 2017 í Frakklandi þegar landsliðið var undir stjórn Geirs Sveinssonar.

Draumar geta ræst. Bjarki Már í fyrri leiknum við Þjóðverja í Brimum á laugardaginn. Mynd/HSÍ

Vill komast nær Ólympíuleikum

Bjarki Már segir að draumur sinn sé m.a. að taka þátt í Ólympíuleikum. „Maður er ekkert að yngjast svo það er ljóst að möguleikum á þátttöku á Ólympíuleikum fækkar með hverju árinu sem líður. Þess vegna vil ég að við náum sæti sem gefur þátttökurétt í forkeppni leikanna svo að maður komist að minnsta kosti skrefinu nær. Það verður allt gert til þess að ná því,“ segir Bjarki Már sem á fleiri drauma með landsliðinu sem hann fer ekki í grafgötur með.

Framundan er krefjandi verkefni

„Ég á mér einnig þann draum að leika um verðlaun á stórmóti með landsliðinu. Hvort það gerist núna eða eftir ár eða tvö það veit ég ekki. Mig langar bara að gera það sem fyrst. Næsta mót er eftir nokkra mánuði og þess vegna mun ég gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að ná þessu markmiði mínu. Ég veit að strákarnir ætla sér sömu leiðina. Að sama skapi gerum við okkur grein fyrir að framundan er mjög krefjandi verkefni. Riðillinn er erfiður og við verðum að vinna hann til þess að komast í sem besta stöðu fyrir framhaldið í mótinu. Það væri blóðugt að tapa stigum strax í riðlakeppninni. Slíkt gæti komið okkur upp að vegg í mótinu,“ sagði Bjarki Már Elísson landsliðsmaður í handknattleik og hornamaður ungverska stórliðsins Veszprém í samtali við handbolta.is.

D-riðill (Kristianstad)
12. janúar:
Ungverjaland – Suður Kórea, kl. 17.
Ísland – Portúgal, kl. 19.30.
14. janúar:
Portúgal – Suður Kórea, kl. 17.
Ísland – Ungverjaland, kl. 19.30.
16. janúar:
Suður Kórea – Ísland, kl. 17.
Portúgal – Ungverjaland, kl. 19.30.

Leikjadagskrá HM – smellið hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -