- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ég er kannski ekki sama fallbyssan og áður

Rúnar Kárason í þann mund að skjóta á markið gegn Elvari Erni Jónssyni í viðureign Ribe-Esbjerg og Skjern á leiktíðinni. Daníel Þór Ingason fylgist vel með. Mynd/Ribe-Esbjerg HH A/S
- Auglýsing -

„Mér hefur gengið vel þótt liðinu hafi ekki vegnað eins vel og við viljum. Ég hef fengið mikla ábyrgð í liðinu og nýtt mér það til hins ýtrasta eins og undanfarin ár sem hefur skilað sér í því að vera með efstu mönnum á lista yfir skoruð mörk og stoðsendingar öll þrjú tímabilin mín í Danmörku,“ sagir Rúnar Kárason, handknattleiksmaður hjá Ribe-Esbjerg í samtali við handbolta.is í vikunni. Rúnar var á dögunum útnefndur leikmaður nóvember mánaðar í dönsku úrvalsdeildinni.

Eftir 15 umferðir af 22 í dönsku úrvalsdeildinni er Rúnar í sjöunda sæti yfir þá leikmenn sem hafa átt flestar stoðsendingar, 48. Hann er í áttunda sæti yfir þá markahæstu með 72 mörk, þar af aðeins eitt úr vítakasti. Eins kom fram á handbolti.is fyrr í vikunni þá kveðjur Rúnar Ribe-Esbjerg-liðið eftir þetta keppnistímabil.

ÞAÐ ríkir Þórðargleði hjá mörgum í Danmörku vegna þessa árangurs okkar


„Ef eitthvað er þá hefur mér gengið betur með hverju árinu sem líður. Um þessar mundir nýt ég þess að hafa verið duglegur að æfa í vor þegar öllu var skellt í lás í Danmörku. Þá rann á mig mikið hlaupaæði auk þess sem ég dustaði rykið að ketilbjöllum sem við keyptum einhverntímann en höfðu verið lítið notaðar,“ segir Rúnar og bætir við að með aukinni reynslu þá færist meiri yfirvegun í leikinn.

Nýt þess að hafa verið duglegur


„Ég er kannski ekki sama fallbyssan og áður og er fyrir vikið farinn að sjá önnur atriði leiksins betur en fyrir nokkrum árum. Þess utan þá nýtur maður þess í dag að hafa verið duglegur þegar auðveldara var kannski að vera það ekki.“

Engu er líkara en að við stöndum á þröskuldi sem við sálfræðilega náum ekki að stíga yfir


Ribe-Esbjerg hefur gengið illa á keppnistímabilinu og situr í 12. sæti af 14 liðum með níu stig þegar 15 leikir eru að baki. Aðeins sjö umferðir eru eftir þangað til úrslitakeppnin hefst.

Oft komið upp fínar stöður

„Okkur hefur gengið illa að safna stigum. Á kafla í mótinu hefur leikur okkar gengið nokkuð vel en því miður þá hefur það alltof oft gerst að þegar menn leika sig í góð færi þá hefur þeim ekki borið gæfa til þess að nýta færin. Oft hafa komið upp fínar stöður í leikjum þegar allt hefur skyndilega farið í baklás hjá okkur, því miður. Engu er líkara en að við stöndum á þröskuldi sem við sálfræðilega náum ekki að stíga yfir,“ segir Rúnar og viðurkennir að þessi staða taki á andlega.

Synt gegn straumnum

„Við höfum synt gegn straumnum frá upphafi tímabilsins. Ekki bætir úr skák að það ríkir Þórðargleði hjá mörgum í Danmörku vegna þessa árangurs okkar,” bætir Rúnar við og vitnar til þess að fyrir fáeinum árum hafi forráðamenn félagsins verið með yfirlýsingar í þá veruna að nú væri stefnan tekin á toppinn samhliða því að talsverðir peningar voru lagðir í liðið. Þær áætlanir hafi alls ekki gengið eftir.


„Liðið var kannski ekki nógu vel sett saman, eitthvað í þessu öllu saman blandaðist ekki rétt. Eins og gerist á tíðum þá ganga hlutirnir ekki upp þótt góður þjálfari hafi gott lið í höndunum. Við náðum ekki að smella saman.“

ég er að minnsta kosti ekki tilbúinn að gefast upp


Róðurinn þyngist með hverjum leiknum sem líður hjá Ribe-Esbjerg í áttina að úrslitakeppni átta efstu liðanna um meistaratitilinn. Ljóst er að margt þarf að ganga upp til að það markmið náist og e.t.v. líklegra að Ribe-Esbjerg endi í þeirri keppni sem snýr að því að forðast fall. Í dönsku úrvalsdeildinni fellur aðeins eitt lið beint en þau sem fyrir ofan að áttunda sætinu fara í úrslitakeppni um að forðast að verða hitt liðið til að falla. Rúnar segist ekki hafa lagt árar í bát. Enn sé möguleiki á að krækja í áttunda sætið þar sem mjög þéttur hópur liða er um miðja deildina og fá stig sem skilja að.

Þurfum að brjóta ísinn

„Ef við vinnum þá leiki sem við eigum að vinna og náum í einn eða tvo óvænta sigra á lokasprettinum þá getur staðan breyst skyndilega. Ég er sannfærður um að ef okkur tekst að brjóta ísinn þá eigum við sömu möguleika á að komast á sigursiglingu eins og við lentum inn á þeirri tapbraut sem við höfum verið á. Um þessar mundir vantar okkur fimm stig í að komast upp í úrslitakeppnissæti í efri hlutanum. Vissulega er útlitið ekki gott en ég er að minnsta kosti ekki tilbúinn að gefast upp,“ segir Rúnar Kárason, handknattleiksmaður hjá Ribe-Esbjerg í Danmörku.

Rúnar og samherjar sækja meistaralið Aalborg Håndbold heim á morgun.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -