- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hef bara svo gaman af þessu

Sunna Jónsdóttir, handknattleikskona með ÍBV. Mynd/ÍBV
- Auglýsing -

Sunna Jónsdóttir átti stórleik með ÍBV í fyrstu umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik á laugardaginn þegar liðið gerði jafntefli við KA/Þór, 21:21, í Vestmannaeyjum í hörkuleik.

Auk þess að skora fjögur mörk þá var hún með átta löglegar stöðvanir í vörninni, varði tvö skot og stal boltanum þrisvar sinnum af leikmönnum KA/Þórs. Segja má að Sunna hafi nú tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið þegar síðasta keppnistímabili var slaufað í byrjun mars.  Þá var hún farin að nálgast sitt fyrra leikform enda bankaði hún á dyrnar hjá landsliðinu.

„Það tók mig smátíma að komast á gott skrið eftir að ég eignaðist strákinn og við fjölskyldan fluttum til Vestmannaeyja frá Noregi,“ sagði Sunna þegar handbolti.is sló á þráðinn til hennar. Sunna lék í fimm ár sem atvinnumaður í Noregi og í Svíþjóð en flutti heim sumarið 2018 ásamt manni sínum, Birni Viðari Björnssyni, og ungum syni þeirra. Ferill Björns Viðars á handknattleiksvellinum tók óvænta stefnu fljótlega eftir komuna til Eyja.

Frábært starf í Eyjum

 „Mér finnst bara ógeðslega gaman í boltanum eftir að formið er orðið gott. Ég sé ekki fram á annað en að maður verði á fullu áfram meðan þannig er og ástríðan er fyrir hendi. Til viðbótar er spennandi að taka þátt í þessu frábæra starfi sem unnið er í kringum kvennaboltann hér í Eyjum.“

ÍBV-liðið styrktist mikið fyrir keppnistímabili með komu  landsliðskvennanna Birnu Berg Haraldsdóttur og Hrafnhildar Hönnu Þrastardóttur.  Sunna segir að fyrir hafi verið góður kjarni sem byggt verði ofan á ásamt nýju leikmönnunum. Framundan sé áhugavert og spennandi keppnistímabil þar sem a.m.k. sex lið muni berjast um toppsætin. Og ÍBV-liðið ætlar ekki að gefa þumlung eftir í þeirri baráttu.

Þær yngri eru metnaðarfullar

„Það var frábært að fá stelpurnar inn í hópinn og styrkir liðið mikið enda er það stefna okkar í liðinu og félagsins að vera í toppbaráttu. Mér sýnist deildin verði jöfn og spennandi. Það býður upp á flottan handboltavetur í Olísdeild kvenna því við erum ekki eina liðið sem hefur styrkst frá síðasta tímabili,“ segir Sunna og undirstrikar að þrátt fyrir að sterkir leikmenn hafi komið til ÍBV í sumar þá megi ekki gleyma að fyrir hendi sé hópur ungra og afar metnaðarfullra stúlkna í liðinu sem eru tilbúnar að leggja hart að sér. Það sé afar mikilvægt.

Fyrirmyndir eru mikilvægar

„Það er afar vel haldið utan um handboltann í Eyjum, ekkert síður í kvennaflokki en í karlaflokki. Einn þátturinn er að hlúa vel að uppöldum leikmönnum, ekkert síður en þeim sem bætast í hópinn og eru utanaðkomandi.  Yngri leikmenn verða að hafa fyrirmyndir en einnig fá tækifæri svo þeir finni að þeim sé treyst. Ég er á því að við séum með góða blöndu í liðinu. Yngri stelpurnar fengu nasaþefinn á síðasta vetri eftir að þeim var nánast hent út í djúpu laugina þegar keppnistímabilið hófst,“ segir Sunna ennfremur.

Sunna lék með Fylki í yngri flokkunum og upp í meistaraflokk en skipti þá yfir til Fram og var m.a. í Íslandsmeistaraliði félagsins vorið 2013. Eftir það fór hún utan og lék í Noregi og Svíþjóð um árabil eins og fyrr er rakið. Árum saman lék Sunna með íslenska landsliðinu en féll úr hópnum vegna meiðsla og síðar þegar hún var barnshafandi. Í vor bankaði hún á dyr landsliðsþjálfarans á nýjan leik, ef svo má segja.

Heiður að vera valin á ný

„Það lifir lengi í gömlum glæðum,“  svarar Sunna og hlær þegar hún er spurð hvort hún gefi kost á sér í landsliðið verði eftir því leitað en m.a. er framundan þátttaka í forkeppni heimsmeistaramótsins í byrjun desember. 

„Það var mikill heiður fyrir mig að vera valin á ný í hópinn í vor sem átti að leika í undankeppni EM. Af leikjunum varð ekki vegna kórónuveirunnar en það var gott að vera inn í myndinni á nýjan leik.  Eins og ég segi, þá hef ég bara svo gaman af boltanum um þessar mundir og er bara til í allt. Kannski vegna þess hef ég öðlast að einhverju leyti nýtt líf í boltanum, fengið aðra sýn á íþróttina með dvölinni í Vestmannaeyjum,“ segir Sunna sem er ekki í nokkrum vafa um að sú ákvörðun hennar og Björns Viðars að flytja til Eyja eftir veruna ytra hafi verið hárrétt.

Vel tekið á móti okkur

„Við Björn Viðar sjáum ekki eftir því að hafa skellt okkur til Eyja. Hann hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga í handboltanum, ef svo má segja. Björn Viðar var að leika sér með liðum í annarri og þriðjudeild þegar við vorum úti og var ekkert á leiðinni hingað til að spila með ÍBV þegar við fluttum. Nokkru eftir að við komum heim vantaði ÍBV markmann. Hann dró fram skóna og hefur gengið ótrúlega vel.  Ég held að hann hafi unnið þrjá titla með liðinu á skömmum tíma sem er frábært.

Vegna þess að við erum bæði á fullu í boltanum þá er það örlítið meira púsluspil en ella að raða dagskránni saman með syni okkar en allt vill lagið hafa. Samfélagið í Eyjum hefur tekið einstaklega vel á móti okkur. Drengurinn er hvers manns hugljúfi. Hann þeytist um allt í pössun ef því er að skipta auk þess sem hann er orðinn mikill ÍBV-drengur.  Okkur þremur getur ekki liðið betur,“ sagði Sunna Jónsdóttir, handknattleikskona hjá ÍBV.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -