- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Ég stóð í blokk allan tímann“

Hildigunnur Einarsdóttir er leikmaður Leverkusen. Mynd/Bayer Leverkusen
- Auglýsing -

Hildigunnur Einarsdóttir og samherjar hennar í Bayer Leverkusen töpuðu naumlega fyrir liði Buxtehuder SV, 17:16, í þýsku 1. deildinni í handknattleik í dag en leikið var á heimavelli Buxtehuder. Einstaklega fá mörk voru skoruð í leiknum, aðeins 33, þar af 13 í fyrri hálfleik. Að honum loknum var Leverkusen marki yfir, 7:6. Jafnt var á nánast öllum tölum í leiknum frá byrjun.

Sigurmarkið skoraði Caroline Müller-Korn þremur mínútum og 24 sekúndum fyrir leikslok. Eins og nærri má geta fengu leikmenn beggja liða tækifæri til að bæta við mörkum á síðustu mínútum en allt kom fyrir ekki.

„Við áttum annað stigið klárlega skilið,„ sagði Hildigunnur við handbolta.is eftir leikinn.

„Varnarleikur var mjög góður hjá báðum liðum og sóknarleikurinn var því erfiður. Ég stóð í blokk allan tímann og fékk nánast enga bolta en fiskaði eitt víti,“ sagði Hildigunnur sem leikur á línunni. Hún náði ekki að skora en átti eitt markskot þegar hún vann vítakastið.

Markverðir beggja liða fóru á kostum og voru með á milli 40 og 50% hlutfallsmarkvörslu þegar upp var staðið.

Þetta var aðeins þriðji leikur Leverkusen í deildinni á keppnistímabilinu en liðið hefur verið afar óheppið, því að tveimur viðureignum þess var frestað í síðasta mánuði. Þar af leiðandi vantar enn nokkuð upp á leikformið sem kemur verulega niður á sóknarleiknum.

„Sóknarleikurinn okkar er alls ekki nógu góður. Við sækjum hreinlega ekki nógu vel á markið. Það er mikil vinna framundan hjá okkur í þeim efnum,“ sagði Hildigunnur ennfremur.

Leverkusen sækir lið Metzingen heim á miðvikudagskvöldið og sækir HSG Bad Wildungen Vipers í heimsókn á sunnudaginn eftir viku. Það verður í mörg horn að líta hjá Hildigunni og samherjum næstu daga.

„Þetta verður ógeðslega erfiður leikur a miðvikudaginn gegn Metzingen og við verðum að undirbúa okkar vel næstu tvo daga,“ sagði Hildigunnur Einarsdóttir við handbolta.is fyrir stundu.

Metzingen og Leverkusen eru jöfn að stigum með tvö stig hvort eftir þrjá leiki.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -