- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eigum að fara á fulla ferð í desember

Ágúst Birgisson, handknattleikskarl FH 2021. Mynd/ J.L.Long
- Auglýsing -

„Ég vil hefja Íslandsmótið eins og fljótt og við getum. Ef leyft verður að hefja æfingar í byrjun desember þá eigum við að byrja að spila tíunda desember og leika þrjár til fjórar umferðir fram að áramótum,“ segir Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH, í samtali við handbolta.is.

Ásgeir segir að ekki megi dragast að hefja keppni sem fyrst eftir að tækifæri gefist til. Ef opnað verður fyrir æfingar í næstu tilslökunum heilbrigðisyfirvalda í byrjun desember eigi ekki of langur tími að liða þar til Íslandsmótið verði keyrt í gang. Ekki sé ástæða til að draga keppnina lengur en nauðsyn krefji.

Vitum ekki hvað er framundan

„Við verðum að koma okkur af stað eftir langt hlé. Við vitum heldur ekki hvað framtíðin ber í skauti sér og hvort gera verði annað hlé þegar kemur inní mars svo ég nefni eitthvað sem dæmi. Ég tel að við eigum að nota tækifærið um leið og það gefst til að koma handboltanum af stað aftur.“

Ásgeir er að þessu leyti á öndverðum meiði við Þorgeir Haraldsson, formann handknattleiksdeildar Hauka. Þorgeir sagði í samtali við handbolta.is að rétt væri að bíða fram í byrjun janúar með að flauta til leiks aftur. Gefa ætti liðunum desembermánuð til að komast í gang við æfingar. 

Ásgeir og Þorgeir eru hinsvegar sammála um að nota eigi janúar mánuð til leika í Olísdeild karla þótt landsliðið taki þátt í HM í Egyptalandi.

Brýnt verði að halda keppni áfram í Olísdeild karla burt séð frá HM og leikjum í undankeppni EM gegn Portúgal 6. og 10. janúar.

Leikmenn verða að velja á milli

„Leikmenn sem leika hér heima verða bara að gefa landsliðssæti sitt eftir og taka sín félagslið fram yfir landsliðið. Nauðsynlegt er að nýta janúarmánuð eins og kostur er og vinna upp þá mánuði sem ekkert hefur verið leikið,“ segir Ásgeir en síðast var leikið í Olísdeild karla 3. október og 26. september í Olísdeild kvenna. FH á lið í báðum deildum.

Spurður hvort hann telji leikmenn vera tilbúna til þess að fara á fulla ferð í kringum 10. til 12. desember og leika af krafti til áramóta og taka síðan upp þráðinn strax í upphafi árs telur Ásgeir svo vera. „Þjálfarar geta dreift álaginu á leikmenn og nýtt leikmannahópa sína eins og kostur er. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að menn leiti allra leiða til þess að leika á nýjan leik og gera handboltann sýnilegan aftur.“

Spilum inn í sumarið ef þarf

Ásgeir telur að á hverju sem gangi verði að ljúka Íslandsmótinu. Ekki megi það gerast aftur að hætt verði nánast í miðjum klíðum líkt og gert var í vor. „Ef við þurfum að leika inn í sumarið, út júní eða lengur þá verðum við að gera það. Ég var þeirrar skoðunnar í vor að við ættum að sitja af okkur storminn og taka upp þráðinn þegar rofaði til í stað þess að hætta. Fyrir því var ekki hljómgrunnur. Í mínum huga er mikilvægt að það gerist ekki aftur,“ segir Ásgeir.

Stefna ótrauðir á Evrópukeppni

Eftir viku verður dregið til þriðju umferðar í Evrópubikarkeppni karla. Nafn FH verður í pottinum en liðið sat yfir í tveimur fyrstu umferðunum. Stefna EHF er að þriðja umferð Evrópubikarkeppninnar fari fram 12. og 13. desember annarsvegar og 19. og 20. desember hinsvegar.

Ásgeir segir FH-inga stefna ótrauða á þátttöku svo fremi sem aðstæður leyfi vegna kórónuveirunnar. Hann er hvergi banginn þótt þeir leikir færu fram samhliða keppni á Íslandsmótinu verði það raunin. „Ég vil að við förum af stað um leið og mögulegt verður,“ sagði Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH í samtali við handbolta.is í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -