- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eigum að vinna Alsírbúa

Stund milli stríða hjá landsliðsmönnunum, f.v. Arnór Þór Gunnarsson, fyrirliði, Bjarki Már Elísson, Ýmir Örn Gíslason, Elliði Snær Viðarsson og Viggó Kristjánsson. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Ég sá kafla úr leik Alsír og Marokkó í gær þegar við komum í íþróttahöllina og þekki ekki mikið til þeirra enda um að ræða lið og leikmenn sem maður mætir ekki oft. Þeir leika svolítið öðruvísi leik en við erum vanir. Hvernig sem það er þá er framundan annar úrslitaleikur hjá okkur á morgun gegn Alsír. Það þarf ekki að fara í grafgötur með þá staðreynd,“ sagði Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handknattleik og markahæsti leikmaður Íslands í tapleiknum við Portúgal á HM í gær þegar handbolti.is rabbaði við hann eftir hádegisverð á hóteli landsliðsins í Kaíró í dag.


„Við ætlum að fara áfram með tvö stig. Við eigum að vinna Alsírbúa. Ég dreg ekki fjöður yfir það. Nú verðum við að snúa bökum saman sem lið. Framundan er nýr dagur með ný tækifæri,“ sagði Bjarki Már sem segir undirbúning vera að hefjast með þjálfarateymi landsliðsins fyrir leikinn við Alsír á HM sem hefst annað kvöld, laugardag, klukkan 19.30. Leikið verður á sama stað í gærkvöld, New Capital Sport Hall.


„Gæðin eru meiri í okkar liði en hjá þeim. Þannig er það og við verðum að nýta þau þegar á hólminn verður komið,“ sagði Bjarki Már og bætti við að ekki megi dvelja of lengi við leikinn í gær. Nauðsynlegt sé að draga lærdóm af honum en horfa annars fram á veginn til næsta leiks.

Félagsmiðstöð í herberginu

Bjarki Már sagði að vel fari um leikmenn á hótelinu. „Herbergin er stór og góð og maturinn er betri en ég átti von á. Það væsir ekkert um okkur,“ sagði Bjarki Már sem komið hefur upp félagsmiðstöð í herberginu sem hann býr í ásamt hinum þrautreynda markverði landsliðsins, Björgvini Páli Gústavssyni.

„Þangað geta menn leitað ef þeir þurfa að spjalla og eða vilja gott kaffi úr vélinni sem við erum með. Þar höfum við tengt Play Station tölvu og bætt við sófa. Við látum fara vel um okkar,“ sagði Bjarki Már léttur að vanda.

Eitt smit getur skemmt mótið

Spurður hvort menn teldu sig vera örugga á hótelinu með tiliti til veirunnar sem er yfir og allt um kring hér í Kaíró eins og víðast hvar annarstaðar sagði Bjarki Már svo vera. Helst að það væri kannski of margt starfsólk á ferðinni hvar sem farið er. Það er þó allt með grímur.

„Við innan íslenska landsliðsins erum út af fyrir okkur á hótelinu og rekumst lítið á leikmenn annarra landsliða sem hér eru. Hinsvegar finnst mér vera alltof mikið af fólki í kringum hótelið, eins og til dæmis starfsmenn sem eru á hverju strái. Það er alveg óþarfi að menn séu að sópa og skúra matsalinn á meðan við erum að snæða morgunverði eða hádegismat. Það er helst eitthvað svoleiðis sem maður getur gert athugasemdir við. Við reynum að gæta okkar eins vel og við getum t.d. í sóttvörnum. Eins er alltaf verið að hamra á þessum atriðum við okkur að þvo hendur, spritta og nota grímur. Sóttvarnirnar liggja ekki síður hjá okkur en öðrum. Það verður að hafa þetta í huga frá morgni til kvölds enda gæti eitt smit skemmt mótið fyrir okkur,“ sagði Bjarki Már Elísson, hornamaður íslenska landsliðsins í samtali við handbolta.is í Kaíró í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -