- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eigum enn mikla vinnu fyrir höndum

- Auglýsing -

„Haukar eru það lið sem hentar okkur verst í deildinni, einfaldlega vegna hæðar leikmanna og þyngdar. Við gerðum okkar besta í leiknum en það gekk ekki betur en raun ber vitni um,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari karlaliðs HK, eftir tap fyrir Haukum, 30:24, í 6. umferð Olísdeildar karla í handknattleik á Ásvöllum í gærkvöld.


HK var undir frá upphafi leiksins og um skeið munaði 12 mörkum í síðari hálfleik. „Við eigum enn mikla vinnu fyrir höndum. Margt gekk illa hjá okkur en annað tókst betur. Til að mynda fannst mér varnarleikurinn vera góður þegar við gátum stillt upp í vörn. Haukar skoruðu mörg mörk eftir seinni bylgju og fyrsta tempói hraðaupphlaupa.

Mér fannst við oft gera vel í vörninni þegar möguleiki var á því á annað borð, jafnvel þegar Haukar voru með sína sterkustu sóknarmenn,“ sagði Sebastian sem tók við þjálfun HK-liðsins í sumar ásamt Eyjamanninum Guðfinni Kristmannssyni.


„Hinsvegar vorum við í rosalegum vandræðum í sókninni að þessu sinni. Haukar stóðu aftarlega og okkur lánaðist ekki að teygja þá til. Línumenn okkar fengu ekkert rými til að hreyfa sig. Okkur tókst ekki að skapa stöður. Þeir gáfu okkur skotin en þau skot sem við tókum rötuðu ekki rétta leið. Á stundum vantaði meira hugrekki í skotin,“ sagði Sebastian ennfremur.

Engan bilbug er að finna


Sebastian segir engan bilbug vera að finna á þjálfarateyminum og leikmönnum. Menn eru með báða fætur á jörðinni ennþá þrátt fyrir að sex fyrstu leikirnir í Olísdeildinni hafi tapast.


„Við erum staðráðnir í að halda sæti okkar í deildinni. Takist það hinsvegar ekki þá höldum við áfram okkar vinnu. Þjálfarateymið og leikmenn hafa skuldbundið sig til þriggja ára að byggja upp lið hjá HK. Takist það ekki í fyrstu tilraun þá reynum við aftur. Fyrr en síðar mun okkur takast að búa til gott lið. Leiðin að markinu verður þyrnum stráð með verri bakslögum en því sem við urðum fyrir í kvöld. En við munum líka vinna leiki. Ég get fullyrt það,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari HK.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -