„Það er það eina í stöðunni, að vinna. Spila þéttan leik og taka þá,“ sagði Ómar Ingi Magnússon, landsliðsmaður í handknattleik, við handbolta.is fyrir æfingu íslenska landsliðsins á Ásvöllum síðdegis í gær, spurður út í leikinn við Portúgal í Schenker-höllinni á Ásvöllum í dag. Eftir tap íslenska liðsins í fyrri leiknum við Portúgal í undankeppni EM á síðasta miðvikudag, 26:24, ríkir einhugur um að snúa taflinu við í dag.
„Við eigum helling inni í sóknarleiknum þar sem vantaði meiri hreyfingu og flot á boltann. Vörnin var ágæt þótt ýmis smærri atriði megi bæta. En fyrst og fremst verðum við að bæta sóknarleikinn og fá fleiri mörk eftir hraðaupphlaup og úr seinni bylgjunni,“ sagði Ómar Ingi sem leikur í dag sinn 49. landsleik.
„Til viðbótar verðum við að nýta betur þau færi sem við fáum. Við létum markvörðinn þeirra hirða of mikið af skotum okkar,“ sagði Ómar Ingi ennfremur en viðureign Íslands og Portúgals hefst klukkan 16 í dag og verður í beinni útsendingu RÚV. Engum áhorfendum verður hleypt inn í Schenker-höllina að þessu sinni.
Ómar Ingi hefur leikið með íslenska landsliðinu á tveimur síðustu heimsmeistaramótum og nú á leiðinni á sitt þriðja. Alls er HM-leikir hans 14 og mörkin 29. Ómar Ingi segir að ekki koma til greina að slá eitthvað af vegna þess að HM sé handan við hornið. „Við verðum „all inn“ í leiknum. Tökum einn leik í einu, jafnt núna sem þegar komið verður á HM. Það skilar okkur örugglega árangri,“ sagði Ómar Ingi Magnússon, landsliðamaður í handknattleik og leikmaður SC Magdeburg í Þýskalandi.