- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eigum og verðum að gera betur í næstu leikjum

Snorri Steinn Guðjónsson fylgist íbygginn með leiknum í kvöld. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Þetta var erfiður leikur, stál í stál. Varnarleikurinn góður, sérstaklega framan af auk þess sem Viktor Gísli var frábær í markinu. Bæði lið léku dúndurgóða vörn,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla eftir jafntefli við Serba í frumraun hans sem landsliðsþjálfara á stórmóti. Með ævintýralegum endaspretti tókst íslenska liðinu að kría út jafntefli, 27:27.

„Þegar á leið þá töpuðum við aðeins niður þræðinum í vörninni. Kannski misstum við þolinmæðina og fengum þar af leiðandi á okkur skíta mörk. Serbar náðu þar af leiðandi þeirri óskastöðu að vera með tveggja til þriggja marka forystu allan síðari hálfleikinn,“ sagði Snorri Steinn sem þrátt fyrir að vera óánægður eitt og annað vildi hrósa karakternum í liðinu að vinna annað stigið í lokin.

Leist ekkert á blikuna

„Ég fer ekkert í felur með að mér leist ekkert á blikuna í stöðunni 24:27. Það að jafna leikinn lýsir risastórum karakter í liðinu, mikilli trú. Það er eitthvað í liðinu sem gerir að okkur tekst að snúa við taflinu á allra síðustu stundu. Við verðum að nýta það, taka með áfram.

Verðum að vera gagnrýnir

Um leið verðum við að vera gagnrýnir á okkur sjálfa og viðurkenna að við getum gert betur, ekki síst sóknarlega og þurfum líka að gera það í næstu leikjum,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í samtali við handbolta.is í Ólympíuhöllinni í München í kvöld.

Lengra hjóðritað viðtal við Snorra Stein er að finna hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -