Einar Bragi Aðalsteinsson og félagar í IFK Kristianstad gerðu sér lítið fyrir og lögðu efsta lið sænsku úrvalsdeildarinnar, Ystads IF, 30:28, í 15. umferð deildarinnar í kvöld en leikið var í Ystad. Var þetta aðeins annað tap Ystads-liðsins á leiktíðinni. IFK Kristianstad situr í öðru sæti deildarinnar ásamt IK Sävehof og HK Karlskrona fjórum stigum á eftir Ystads. IK Sävehof og HK Karlskrona unnu einnig leiki sína í kvöld.
Skoraði tvisvar
Einar Bragi skoraði tvö mörk í leiknum. Axel Månsson, burðarás U20 ára landsliðs Svía á EM í Slóveníu sumar, var markahæstur með sjö mörk.
Grannlið Kristianstad, HK Karlskrona, heldur áfram að gera það gott í deildinni. Karlskrona lagði Önnereds í Gautaborg í kvöld, 33:30. Isak Larsson skoraði tvö síðustu mörk leiksins og innsiglaði sigurinn.
Fimm stoðsendingar
Dagur Sverrir Kristjánsson skoraði eitt mark fyrir Karlskrona. Ólafur Andrés Guðmundsson var ekki á meðal þeirra sem skoraði fyrir liðið. Hann gaf hinsvegar fimm stoðsendingar sem skiluðu mörkum. Þorgils Jón Svölu Baldursson var ekki í leikmannahópnum fremur en undanfarnar vikur.
Döhler öflugur
Phil Döhler fyrrverandi markvörður FH var mjög góður í marki í Karlskrona í leiknum í kvöld. Hann varði 14 skot, þar af eitt vítakast, 36%.
Tryggvi fjarverandi
Tryggvi Þórisson var heldur ekki með IK Sävehof þegar liðið vann Amo HK, 39:34, í Partille. Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði fjögur mörk fyrir Amo sem áfram er í 12. sæti af 14 liðum sænsku úrvalsdeildarinnar. Auk fjögurra marka átti Arnar Birkir fjórar stoðsendingar.
Staðan í sænsku úrvalsdeildinni: